GusGus rýnir í þrumuský yfir mannkyninu

Mynd: - / GusGus

GusGus rýnir í þrumuský yfir mannkyninu

10.06.2021 - 15:51

Höfundar

Hljómsveitin GusGus sendi frá sér sína elleftu plötu á 26 árum á dögunum. Sú nefnist Mobile Home og er eins konar konsept plata, þar sem kveður við myrkari tón en oft áður.  

„Það sem vakti fyrir okkur var að skoða nútímamanninn og í hvaða málum hann er í. Yfir honum vofir dökkt ský,“ segir Daníel Ágúst, söngvari GusGus um þema plötunnar. „Þetta er ansi ógnvænleg mynd sem við drögum upp en svo brjótast nokkrir sólageislar í gegnum þrumuskýin.“ 

Þriðji meðlimur GusGus á Mobile Home er Margrét Rán, söngkona hljómsveitarinnar Vök. Birgir Þórarinsson, Biggi veira, kynntist henni þegar hann hljóðblandaði plötu fyrir Vök á sínum tíma. 

„Ég heyrði hvað Margrét er geðveik söngkona, hún hefur þetta „special something“ sem topp tíu söngvarar þurfa að hafa. Svo eftir síðustu útgáfutónleikana þeirra  spurði hún í hálfkæringi: Hvenær á ég að syngja fyrir GusGus? Svo ég sendi henni demó, eitthvað skrítið sem ég átti ofan í skúffu og vissi að væri ekki fyrir Daníel. Það varð síðan lagið Higher.“ 

Þótt hljómsveitin hafi verið að í aldarfjórðung er hljóðheimur hennar ávallt ferskur og nútímalegur, eða öllu heldur tímalaus. 

„Á nýju plötunni leitum við dálítið til fortíðar með innblástur en  við snúum svoupp á það og gerum það að okkar,“ segir Daníel.  

Kosturinn við það að vera gamall er að ég upplifði eitísið og næntísið „first hand“, segir Biggi og hlær. Það voru bara svo geðveikir tímar í elektrónískri tónlist. Mikil þróun í gangi og maður var á staðnum þegar þetta var kúl. Maður getur notað það og hent inn í jöfnuna. Ég held að það sé ástæðan  fyrir því að Gu gus sándar aldrei eins og neitt annað því við erum í annarri blöndu.“ 

Til stóð að halda upp á 25 ára afmælið með stórtónleikum í Hörpu í fyrra en þeim var frestað í tvígang og verða á milli jóla og nýárs.

„Ég held að það verði mjög heppilegt að gera þetta þá. 25 ára tónleikarnir ganga dálítið út á að spila eitthvað af næntís tónlistinni sem við höfum ekki spilað síðan þá, setja það á borðið í samhengi við söguna. En þangað til er það bara Mobile home og við ætlum að reyna að sjá hvort við getum troðið útgáfutónleikum fyrir hana inn í haust.“ 

Fjallað var um GusGus og Mobile home í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Ekki feilnóta á ferli

Tónlist

GusGus og Vök í eina sæng

Tónlist

Fyrir þá sem þola ekki hita, svita og þrengsli