Fyrsti sigur Fylkis kom á móti Tindastóli

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Fyrsti sigur Fylkis kom á móti Tindastóli

10.06.2021 - 19:54
Fylkir vann í kvöld sinn fyrsta leik á leiktíðinni í úrvalsdeild kvenna í fótbolta. Fylkiskonur sigruðu þá Tindastól 2-1 á heimavelli í Árbænum.

Hulda Hrund Arnarsdóttir kom Fylki yfir með marki á 26. mínútu og Shannon Simon bætti öðru marki við á 55. mínútu. Skagfirðingar minnkuðu muninn rétt áður en leik lauk þegar Hugrún Pálsdóttir skoraði á 88. mínútu. Amber Kristín Michel markvörður Tindastóls fór fram í hornspyrnu í uppbótartíma og skallaði boltann framhjá. Úrslitin urðu því 2-1 fyrir Fylki.

Liðin höfðu sætaskipti með úrslitunum. Fylkir er nú í 9. sæti með 5 stig en Tindastóll settist í botnsætið og hefur þar 4 stig.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram 11. maí, en var frestað þar sem stór hluti Sauðárkróks var í sóttkví á þeim tíma. Öll liðin í úrvalsdeildinni hafa nú leikið jafn marga leiki. Sex umferðum er því alveg lokið núna.