Fyrsta úlfagotið í 80 ár

10.06.2021 - 22:51
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Yfirvöld í Colorado hafa greint frá fyrsta goti af gráum ylfingum í ein 80 ár. Þetta þykir marka þáttaskil í baráttu ríkisins við að koma tegundinni á legg en hún stendur höllum fæti víða um Bandaríkin.

Fyrr í vikunni tilkynnti líffræðingur á vegum ríkisins að staðfestingu á því að sést hefði til „John“ og „Jane“, sem eru þekktir úlfar með hálsmerkingu, með þrjá ylfinga. Ekki er vitað hvort ylfingarnir þrír sem sást til séu einu afkvæmin. Got gráúlfa telja venjulega fjóra til sex ylfinga.

Naumlega kosið með verndun

„Þetta er fyrsta úlfagotið okkar hér í Colorado síðan á fimmta áratug síðustu aldar,“ sagði ríkisstjórinn Jared Polis í yfirlýsingu á miðvikudag. „Við bjóðum þessa sögulegu nýju úlfafjölskyldu velkomna til Colorado.“
Naumur meirihluti Íbúa Colorado greiddu atkvæði í fyrra með lögum sem kveða á um verndun gráa úlfastofnsins fyrir árið 2023. Er það í fyrsta sinn sem kjósendur ríkis knýja ráðamenn til að vernda tiltekna dýrategund.

Um 250.000 gráir úlfar reikuðu forðum landshorna á milli í Bandaríkjunum áður en evrópskir landnemar hófu útrýmingu á stofninum með skotvopnum, gildrum og eitri í herferð sem stóð fram á 20. öld. Nú er áætlað að um 6.000 gráir úlfar séu eftir á meginlandi Bandaríkjanna en þeir töldu ekki ekki nema um þúsund dýr þegar þeir hlutu loks vernd samkvæmt lögum um dýr í útrýmingarhættu í lok áttunda áratugarins.

Óyggjandi vistfræðilegt mikilvægi

Þrátt fyrir þessar fréttir frá Colorado hafa náttúruverndarhópar áfram miklar áhyggjur af framtíð tegundarinnar eftir að stjórn Donalds Trump, fyrrverandi forseta, afnam verndun gráúlfa á síðasta ári og berskjaldaði þannig tegundina í nokkrum ríkjum gagnvart sportveiðum og almennri útrýmingu.

Rannsóknir hafa sýnt fram á óyggjandi vistfræðilegt mikilvægi gráa úlfsins því hann heldur stofnum elgs og bjórs í skefjum. Þannig viðhalda úlfarnir bæði skóglendi og votlendi.

Jón Agnar Ólason