Fullkominn dagur: bólusetning og deildarmyrkvi

10.06.2021 - 16:17
Sævar Helgi Bragason - Mynd: RÚV / RÚV
Deildarmyrki á sólu var í dag og þrátt fyrir erfið skilyrði sást hann prýðilega. Ritstjóri Stjörnufræðivefsins segir daginn hafa verið fullkominn, hann sá deildarmyrkvann og fékk bólusetningu, nánast á sama tíma.

Deildarmyrkvinn hófst klukkan 09:06, náði hámarki 10:17 og lauk klukkan 11:33. Þegar hann var í hámarki huldi hann 69% af þvermáli sólar séð frá Reykjavík. Þetta var mesti deildarmyrkvi sem sést hefur frá Íslandi í rúm sex ár. Reyndar leit ekkert allt of vel út með skilyrðin til að berja dýrðina augum þar sem skýjað var og dimmt yfir - í Reykjavík að minnsta kosti - en samt.

„Mér tókst að sjá hann  í gegnum skýin og svo létti reyndar til, tímabundið og þá bara blasti hann við og gleraugun komu að góðu gagni þar. En þetta var bara gullfallegt þótt að útlitið hafi ekki verið neitt mjög gott þegar maður var hérna hlaupandi um  í rigningunni að leita að götum í skýjunum hér og þar,“ segir Sævar Helgi Bragason ritstjóri Stjörnufræðivefsins.

Hann var ekki bara hlaupandi um leitandi að rifum á skýjunum, hann var á sama tíma á hraðferð á leið í Laugardalshöll í bólusetningu.

„Ég fékk bólusetninguna og kom út og þá létti til bara eins og náttúran hefði planað þetta alveg frá a til ö. Þetta er skemmtileg tilviljun og bara fullkominn dagur að fá loksins bólusetninguna og fá að sjá myrkvann í leiðinni, hann stingur sér þarna aðeins í gegn annað slagið.“

Austur á Héraði viðraði töluvert betur til þess að skoða himinhvolfin heldur en í Reykjavík samkvæmt myndum  sem Rúnar Snær Reynisson tók þar eystra.
Reyndar segir Sævar Helgi skýin ekki alslæm við þessar aðstæður ef maður getur fundið göt á þeim. Þrátt fyrir að það hafi verið svona skýjað dimmdi engu að síður þegar deildarmyrkvinn náði hámarki.

„Þegar myrkvinn stóð sem hæst yfir tók maður eftir því að það dimmdi örlítið, það var aðeins dimmara en alla jafna og ég veit ekki hvort að fólk tók eftir því líka en skuggarnir voru aðeins skarpari sem er eitthvað sem gerist líka við svona sólmyrkva.“

Deildarmyrkvinn sást víða vel, til að mynda í Noregi, á austurströnd Bandaríkjanna og í Kanada svo fáein dæmi séu tekin.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV