Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Enn óvíst hvað verður um Sunnutorg

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Íbúar í Langholtshverfinu sem og áhugafólk hvarvetna um arkitektúr og íslenska menningarsögu bíða með kvíðablandinni eftirvæntingu eftir því að sjá hver örlög Sunnutorgs verða. Þessi sögulega bygging sem Sigvaldi Thordarson teiknaði fyrir rúmum 60 árum liggur undir skemmdum og þarfnast sárlega löngu tímabærra viðgerða. Hver er staðan á þessu sérstæða húsi núna?

Annríki, faraldur og forgangsröðun

Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir drátt hafa orðið á að vinna úr þeim hugmyndum sem fram komu varðandi rekstur í húsinu, bæði vegna annríkis á eignaskrifstofu borgarinnar og einnig var ekki talið heppilegt að leggja í þessa vinnu á meðan COVID-19 faraldurinn geisaði sem hæst þar sem um uppbyggingu á veitingahúsaaðstöðu er að ræða.

„Við höfum auðvitað töluvert af slíkri aðstöðu í borginni nú þegar,“ segir Pawel um fyrirhugaðan veitingarekstur í Sunnutorgi og bætir við að öðrum verkefnum hafi því verið forgangsraðað ofar.

Veitingarekstur enn fyrsti kostur

Aftur á móti stendur til að ráðast í þessa vinnu núna, að sögn Pawels, og þá verður nokkrum aðilum af þeim sem sendu inn tillögur á sínum tíma boðið að þróa sínar hugmyndir nánar áður en valinn verður einn aðili sem borgin metur heppilegastan til að sinna þessu verkefni. Pawel metur stöðuna svo að enn sé það fyrsti kostur að í Sunnutorgi fari fram veitingarekstur í einhverri mynd.

„Að mínu mati myndi þetta hús henta best fyrir slíkan rekstur og það er það sem okkar hugmyndir ganga út á. Það hefur tekist ágætlega víða um borgina að búa til lítil hverfiskaffihús sem hafa fangað góðan staðaranda. Það væri því að mínu mati klárlega fyrsti kostur.“

Meira líf og fjölbreytni í hverfið

Sunnutorg var teiknað árið 1958 og reis við Langholtsveg ári síðar. Þar var um áratugaskeið stoppistöð fyrir strætisvagna, veitingasala og söluturn. Árið 2017 auglýsti Reykjavík eftir hugmyndum að starfsemi í Sunnutorgi þar sem tiltekið var að við val á starfsemi yrði „miðað við að húsið gæði hverfið meira lífi og fjölbreytni.“ 

Þá þegar var tekið fram að húsið hefði látið mikið á sjá síðustu ár en þar sem lítið hefur gerst síðastliðin fjögur ár í málefnum þessarar merkilegu byggingar blasir við að ástand Sunnutorgs hefur síst skánað á þeim tíma sem liðinn er frá auglýsingunni og ljóst að það gæðir að óbreyttu sitt nánasta umhverfi hvorki auknu lífi né fjölbreytni – nema síður sé.

Óvíst um ástand og nýtingarmöguleika

Aðspurður um ásigkomulag hússins segir Pawel að það síðasta sem hann vissi væri að ástandið hefði verið heldur bágborið og hann hefði ekki upplýsingar um að ástandið hefði lagast síðan. Á þessari stundu væri lítt hægt að fullyrða um hvort húsinu væri yfirleitt viðbjargandi eða þá að einfaldlega yrði að rífa Sunnutorg, og þá mögulega nýta einhverja hluta þess í nýja byggingu.

Hvað tímarammann fram undan varðar bendir Pawel á að sú tímalína sé ekki á hans ábyrgð. „En það væri mjög ákjósanlegt að tala við þá aðila sem brugðust við auglýsingu okkar á sínum tíma á næstu mánuðum og við værum þá að horfa á framkvæmdir á næsta ári. Ef engin er töfin þá er hægt að gera þetta nokkuð hratt. En ég þori ekki að lofa neinu um tímarammann eins og stendur.“

Óumdeilt varðveislugildi

Sigvaldi Thordarson er í hópi ástsælustu og áhrifamestu arkitekta Íslands fyrr og síðar og byggingar hans er að finna víða um land. Sunnutorg, sem stendur á mótum Langholtsvegar og Laugarásvegar, er aftur á móti ein af sárafáum sjoppum sem voru hannaðar af arkitekt og auk þess minnisvarði um ákveðinn kima menningar á Íslandi sem er á hröðu undanhaldi.

Fyrir bragðið er varðveislugildi hússins mikið, bæði með tilliti til að mörgum er umhugað um örlög hússins en ljóst er að ráðast þarf í umfangsmiklar endurbætur á húsinu ef takast á að bjarga því frá algerri glötun.