Engin skynsemi í að afgreiða þjóðgarð núna

10.06.2021 - 12:41
Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
Of mikill ágreiningur var um stofnun hálendisþjóðgarðs og of lítill tími til að sætta ólík sjónarmið, segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir skynsamlegast að vinna málið betur, hún segir að það hefði engin skynsemi verið í því fólgin að afgreiða málið núna.

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis lagði í gær til að frumvarpi um hálendisþjóðgarð yrði vísað aftur til umhverfisráðherra. Þar með er ljóst að ekkert verður af stofnun hálendisþjóðgarðs á þessu kjörtímabili eins og stefnt hafði verið að í stjórnarsáttmála.

Útilokar útfærsluna en ekki hálendisþjóðgarð

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir mikinn ágreining um málið sem hafi komið seint til kasta Alþingis. „Það er svo sem ekki útilokað að menn vilji ganga einhverja leið í því að setja á stærri þjóðgarð á hálendinu. Þar þarf að taka tillit til mjög margra atriða eins og aðgengi að hálendinu fyrir ferðafólk og það þarf síðan að huga að lagningu raflína, mögulegra virkjana,  og annarrar starfsemi sem þarna er.“ Hann segir að mjög óljóst hafi verið í frumvarpinu hvernig þessum málum yrði háttað.

„Þær útfærslur sem koma fram í frumvarpi umhverfisráðherra voru mjög gagnrýndar, mjög víða úr samfélaginu, meðal annars af okkur í þingflokki Sjálfstæðismanna. Við lögðumst algjörlega gegn þeirri útfærslu sem lögð var á borðið,“ segir Jón og bætir við að taka þurfi málið upp og vinna það miklu betur.

Betra að vinna málið betur en láta það standa á brauðfótum

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir málið umfangsmikið og að fyrirvarar Framsóknarmálsins við því hafi í raun verið staðfestir í mörgum þeirra umsagna sem bárust þingnefndinni. Hún segir að nú verði að fara í grunnvinnu við málið. „Sem ég get ímyndað mér að leiði til grundvallarbreytinga í nálgun, bæði hvað varðar umfang og samspil við aðrar stofnanir, sveitarfélög og útfærslu á regluverki.“

Líneik segir að umfang þjóðgarðsins verði að vera viðráðanlegt. Ekki hafi verið möguleiki á málamiðlun fyrir þinglok. „Ég held að það hafi ekki verið á neinn hátt skynsamlegt.“ Þetta sé verkefni sem mikill fjöldi stofnana, einstaklinga og fyrirtækja þurfi að koma að og finna leið sem gengur upp og standi ekki á brauðfótum.