Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Castillo lýsir sig forseta en Fujimori ýjar að svindli

10.06.2021 - 03:32
epaselect epa09252379 Peruvian presidential candidate Pedro Castillo talks to his supporters as he learns the results of the exit polls, in Tacabamba, Peru, 06 June 2021. Leftist candidate Pedro Castillo asked Peruvians to wait calmly for the official results of the presidential elections, as unofficial polls give a technical tie with his rival, right-wing candidate Keiko Fujimori.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Vinstrimaðurinn Pedro Castillo hefur lýst yfir sigri í forsetakosningunum í Perú, þótt yfirkjörstjórn eigi eftir að tilkynna endanleg úrslit í hnífjöfnum forsetakosningunum sem þar fóru fram á sunnudag. Búið er að telja 99,8 prósent atkvæða og af þeim hefur Castillo fengið 50,19 prósent, en keppinautur hans, hægrikonan Keiko Fujimori, 49,8 prósent.

Fujimori krefst ógildingar 200.000 atkvæða

Eins og staðan er núna munar ríflega 67.000 atkvæðum á frambjóðendunum og forveri Castillos hefur þegar óskað honum til hamingju með sigurinn, samkvæmt AFP-fréttastofunni.

Það hefur Keiko Fujimori hins vegar ekki gert, heldur krafist ógildingar 200.000 atkvæða frá 802 kjörstöðum. Auk þess hefur hún farið fram á endurtalningu um 300.000 atkvæða, „þannig að það er hálf milljón atkvæða undir,“ eins og hún sagði á fréttamannafundi.

Enn er verið að telja atkvæði víða um land og bæði framboðin hafa krafist endurtalningar í mörgum kjördæmum. AFP hefur eftir starfsmanni landskjörstjórnar að 10 - 12 dagar geti liðið þar til endanleg, formleg úrslit liggja fyrir.

Fujimori vinsælli meðal brottfluttra en Castillo á landsbyggðinni

Það hefur tafið nokkuð fyrir talningu, hversu lengi atkvæði og niðurstoður eru að berast frá strjálbýlustu svæðum landsins, auk þess sem fjöldi fólks hefur greitt atkvæði utan Perú. Fujimori er sögð vinsælli meðal brottfluttra Perúmanna, en Castillo er með mun meira fylgi í dreifbýlinu, og þau atkvæði eru mun fleiri en þau sem bárust erlendis frá. Því þykir ólíklegt að úrslitin verði önnur en nýjustu tölur sýna, þó ekki sé það ómögulegt.

Mikið í húfi fyrir Fujimori

Fujimori hefur þegar lýst efasemdum um að rétt hafi verið staðið að málum, talað um misfellur á framkvæmd og „vísbendingar um svindl." Á fréttamannafundi sagðist hún hafa „sönnunargögn um einbeittan ásetning um að sniðganga vilja meirihlutans." Í gærkvöld krafðist hún svo ógildingar 200.000 atkvæða, sem fyrr segir.

Fyrir Fujimori er meira í húfi en forsetaembættið, því yfir henni vofir allt að 30 ára fangelsisdómur, verði hún sakfelld í spillingarmáli sem rekið er gegn henni um þessar mundir. Hún hefur þegar eytt 16 mánuðum í gæsluvarðhaldi vegna þess máls. Samkvæmt perúskum lögum yrðu allar kærur gegn henni settar á ís, færi svo að hún yrði forseti, og ekki dregnar fram aftur fyrr en hún lætur af embætti.

Kjörstjórn útilokar svindl og herinn lofar að virða úrslitin

Landskjörstjórnin og kosningaeftirlit Ameríkuríkja segja engar vísbendingar um kosningasvindl og enn síður áþreifanlegar sannanir um slíkt. Þau Castillo og Fujimori lýstu því bæði yfir í aðdraganda kosninganna að þau myndu virða niðurstöðuna.

Í gær sá perúski herinn sig líka knúinn til að senda frá sér yfirlýsingu, þar sem æðstu stjórnendur hans heita því að „virða þann vilja þjóðarinnar, sem kemur upp úr kjörkössunum." Ástæðan er einkum sú að á samfélagsmiðlum hefur verið kallað eftir því að herinn grípi inn í, fari svo að Castillo verði lýstur sigurvegari kosninganna.

Þjóðin klofin í tvær andstæðar fylkingar

Mikil spenna hefur verið í Perú síðan talning hófst, enda þjóðin klofin í tvær gallharðar og fullkomlega andstæðar fylkingar. Önnur þeirra fylgir fylgir sósíalistanum Castillo, sem hefur heitið víðtækri þjóðnýtingu auðlinda og fyrirtækja, hækka skatta og stórefla eftirlit og regluverk hins opinbera.

Hin fylgir frjálshyggjukonunni Fujimori, sem vill lækka skatta og auka frelsi og umsvif einkageirans til að fjölga störfum. Hún hefur varað við því að Perú gæti orðið að nýju Venesúela eða Norður-Kóreu suðursins undir forsæti Castillos. Hann hefur á móti haldið á lofti spillingarsögu Fujimori-fjölskyldunnar.

Keiko er sem fyrr segir ákærð vegna spillingar, mútuþægni og misferlis, og hún er líka dóttir Alberto Fujimoris, fyrrverandi Perúforseta, sem er í fangelsi vegna spillingarmála.