Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Atvinnulaust fólk ekki hilluvara sem hægt er að kippa í

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV - Eggert Þór Jónsson
Þó að atvinnuleysi hafi lækkað hlutfallslega um 12% í síðasta mánuði segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins að ekki sé hægt að fagna því sérstaklega því atvinnuleysi sé enn óásættanlega hátt. Það gangi heldur ekki upp að atvinnurekendur séu í stökustu vandræðum með að manna störf sem þeir auglýsa. Forseti ASÍ segir að ekki megi líta á atvinnulaust fólk sem einhverja lagervöru sem hægt sé að kippa í með stuttum fyrirvara.

Fækkaði um 2400 manns

Atvinnuleysið minnkaði um 1,3 prósentustig í síðasta mánuði, úr 10,4% í 9,1%. Hlutfallslega þýðir þetta að dregið hefur úr atvinnuleysi sem nemur 12,5%. Vinnumálastofnun spáir að það dragi enn frekar úr atvinnuleysi og að það geti jafnvel farið niður í rúm 7% í þessum mánuði. Almennt atvinnuleysi er sem fyrr mest á Suðurnesjum, 18,7% en minnkaði þó um 3 prósentustig. Það þýðir að hlutfallslega hafi atvinnuleysið á Suðurnesjum minnkað um 14 af hundraði. Birna Guðmundsdóttir, deildarstjóri gagnagreiningar hjá Vinnumálastofnun, segir að þetta sé töluvert mikil lækkun atvinnuleysis.

„Og töluvert meiri lækkun heldur en hefur verið. Atvinnuleysið hefur lækkað frá janúarmánuði og fólki hefur verið að fækka á atvinnuleysisskrá um um það bil 800 eða þúsund manns en núna í maímánuði fækkað um 2.400 manns. Það sem meira er að það stefnir í að fækkunin verði enn meiri í júní,“ segir Birna.

Dregur áfram úr atvinnuleysi

Birna segir að atvinnulausum gæti fækkað um 3000 manns í þessum mánuði sem gæti þýtt að atvinnuleysið fari niður í 7,5%. Ekki liggja fyrir spár um næsta mánuð.  Þá 10 daga sem liðnir eru af þessum mánuði hafa um 1700 manns verið ráðnir í störf. Rúmur helmingur þeirra sem nú er ráðinn tengist átakinu Hefjum störf sem er bundið við að ráðið sé fólk af atvinnuleysisskrá.

„Meira en helmingur af þessari fækkun hefur verið vegna þess hve það gengur gríðarlega vel að ráða í störf í átakinu Hefjum störf þar sem markmiðið er að ráða 7 þúsund manns. Nú þegar er búið að ráða 3000. Ráðningarferlið tekur nokkurn tíma þannig að það eru um 2000 í pípunum í þessum mánuði ef ekki meira. Það kemur í ljós hvernig það þróast, hvort það hægist eitthvað á þessu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Birna Guðmundsdóttir

Getum ekki fagnað þessum tölum sérstaklega

Bjartsýnistóninn er ekki eins mikill hjá Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, þegar hann er spurður hvort þessar tölur segi okkur að við séum komin með pálmann í hendurnar.

„Ef maður fer yfir tölurnar eins og þær birtast þá er atvinnuleysi enn þá óástættanlega hátt. Það eru enn þá yfir 20 þúsund manns sem eru atvinnulaus að hluta til eða í heild. Það er auðvitað staða sem sem við getum ekki unað við sem samfélag og við getum ekki verið að fagna þessum tölum sérstaklega.“

- Nú er að fækka um 2400 manns á atvinnuleysisskrá og útlitið virðist vera gott fyrir þennan mánuð. Ber ekki að fagna því?

„Auðvitað fögnum við því í hvert skipti sem einhver fer af atvinnuleysisskrá og inn á vinnumarkað. Það er markmið okkar allra í samfélaginu, sama hvort það eru Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfingin eða stjórnvöld. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að það séu enn þá tæplega 20 þúsund manns atvinnulaus að hluta eða í heild. Til samanburðar eru um 4 þúsund manns í hverjum árgangi Íslendinga þannig að við getum sagt að þetta séu um það bil fimm heilir árgangar sem eru atvinnulausir. Það er óástættanleg staða á alla mælikvarða,“ segir Halldór.

Atvinnulaust fólk ekki hilluvara

Hver eru viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við nýjum tölum um atvinnuleysi þegar Drífa Snædal, forseti ASÍ, er spurð hvort ástæða sé til að fagna?

„Það gengur alla vega hraðar að vinna niður atvinnuleysið heldur en spárnar gerðu ráð fyrir. Þegar lækkunin er 1,3%  milli mánaða er það að sjálfsögðu gott. Þegar ég sá þessar tölur talaði ég við okkar fulltrúa á Suðurnesjum og þau sjá verulegan viðsnúning núna.  Um leið og flugvöllurinn fer af stað fer líka allt afleitt af stað líka. Auðvitað er maður sérstaklega að skoða tölurnar á Suðurnesjum þar sem er stærsta vandamálið. Mér sýnist þetta vera að raungerast það sem við höfðum af sterka tilfinningu fyrir að fólk er að bíða eftir því að  komast í gamla starfið sitt aftur. Um leið og ferðamannabransinn fer af stað, samgöngutakmarkanir léttast þá fara hjólin að snúast. Ég vænti þess að við sjáum töluverða lækkun næstu mánuði. En að því sögðu vegna þeirrar umræðu sem verið hefur fagna ég því að það virðist vera að Vinnumálastofnun ætli að vanda til verka í ráðningum. Við höfum sagt að það á ekki að líta á atvinnulaust  fólk sem hilluvöru. Einhverja lagervöru sem hægt er að kippa í með engum fyrirvara heldur þarf að vanda til ráðninganna vegna þess að annars lenda bæði atvinnuleitendur, vinnandi fólk og atvinnurekendur í vandræðum,“ segir Drífa.

Í vandræðum að manna störf

Halldór Benjamín Þorbergsson hefur áhyggjur af að illa gangi að ráða fólk þó framboð sé af störfum. Hann er nýkominn úr hringferð um landið þar sem hann ræddi við atvinnurekendur.

„Og sagan sem þeir eru að segja mér er sú sama, hvort sem það er á Suðurnesjum, Suðurlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austfjörðum. Atvinnurekendur eiga í stökustu vandræðum með að manna þau störf sem þeir auglýsa. Og ég segi að það er samtal sem samfélagið í heild sinni þarf að taka. Það er ekki bara samtal sem Samtök atvinnulífsins þarf að eiga við verkalýðshreyfinguna heldur er þetta samtal sem þarf að eiga sér stað við eldhúsborðin á öllum heimilum landsins. Að við erum ekki samfélag þar sem fólk er á atvinnuleysisbótum þegar vinnu er að hafa. Við þurfum að kryfja þetta mál til mergjar og svara þessari spurningu hvernig það getur verið að það sé fjöldi lausra starfa hringinn í kringum landið en á sama tíma séu tæplega 20 þúsund manns á atvinnuleysisskrá. Það er jafna sem gengur ekki upp til framtíðar,“ segir Halldór. 

Megum ekki missa fólk í langtímaatvinnuleysi

Halldór Benjamín hefur áhyggjur af langtímaatvinnuleysi. „Í fyrsta skipti í mjög langan tíma erum við að sjá langtímaatvinnuleysi hreiðra um sig á Íslandi. Nú erum um 6.500 manns sem hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Það er samfélagslegt verkefni vegna þess að það tapast svo margt þegar við missum fólk úr virkni yfir í langtímaatvinnuleysi að það má ýmsu kosta til til að koma í veg fyrir að það ágerist,“ segir Halldór.

Á ekki að svelta fólk til starfa

Hvernig svarar forseti ASÍ að vandræði séu við að fá fólk til starfa þrátt fyrir að enn séu um 17 þúsund manns á atvinnuleysisskrá?

„Við fáum alls konar skilaboð frá atvinnurekendum, bæði þeim sem gengur vel að ráða fólk og frá vinnustöðum sem eru að bjóða fólk aftur til starfa og sem gengur í sín fyrri störf. Svo eru einhverjir atvinnurekendur sem hafa kvartað yfir þessu. Og þá aftur vara ég við því að það sé litið á fólk sem lagervöru en ekki fólk. Það geta verið fjölmargar ástæður fyrir því að fólk treystir sér ekki til þeirrar vinnu sem er í boði. Við höfum nefnt vaktavinnu, fjölskylduaðstæður, lengd til vinnustaðar og svo framvegis. Þannig að fólk er fólk en ekki vinnuafl sem á að svelta til verka,“ segir Drífa.