Albaníuþing kærði Albaníuforseta til embættismissis

10.06.2021 - 01:20
epa07641511 President of Republic of Albania Ilir Meta speaking during a press conference in Tirana, Albania, 11 June 2019. President Ilir Meta on 09 June postponed local elections scheduled for 30 June saying it is necessary to avoid civil conflict between people and urged the goverment and oppositon to find a way out.  EPA-EFE/Malton Dibra
Ilir Meta, forseti Albaníu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Albaníuþing undirbýr réttarhöld í landsdómi yfir forseta landsins, Ilir Meta, með það fyrir augum að svipta hann embætti. Samkvæmt þingmönnum Sósíalistaflokksins, sem fara með meirihluta á albanska þinginu, gerði hann sig sekan um að skipta sér af nýafstöðnum þingkosningum í landinu með ólögmætum hætti, þegar hann tók eindregna afstöðu með stjórnarandstöðunni og hélt á lofti ásökunum um kosningasvindl. Var hann því kærður til embættismissis og vikið úr embætti uns mál hans verður tekið fyrir.

107 samþykktu að kæra en 7 á móti

Sósíalistar fengu 74 af 140 þingmönnum þegar kosið var í apríl, Demókratar 59 og Jafnaðarmenn 3. Flokkur forsetans, Sósíalíska sameiningarhreyfingin, fékk aðeins fjóra þingmenn kjörna. Sú hreyfing er klofningsframboð úr Sósíalistaflokknum, undir forystu Metas.

107 þingmenn samþykktu að kæra forsetann og leiða hann fyrir landsdóm en aðeins sjö voru á móti. Aðrir sátu hjá eða voru fjarverandi. Forsetinn þvertekur fyrir að hafa gert nokkuð rangt og segir málsóknina pólitíska hefndaraðgerð ríkisstjórnarinnar. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV