Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áfengisfrumvarpið ekki afgreitt á Alþingi

10.06.2021 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forystumenn þingflokka á Alþingi reyna nú að ná samkomulagi um afgreiðslu mála fyrir þinglok. Þegar er búið að ákveða að frumvarp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta verði ekki afgreitt á þessu kjörtímabili og þá þykir ólíklegt að hægt verði að skapa sátt um stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

 

Stefnt er að því að ljúka þingstörfum á næstu dögum og hafa formenn þingflokka unnið að sátt um forgangsröðun mála. Sjötíu stjórnarfrumvörp bíða afgreiðslu og þegar er ljóst að ekki verður hægt að afgreiða þau öll fyrir þinglok.

Umdeild mál hafa þegar verið tekin af borðinu og verða ekki afgreidd á þessu kjörtímabili.  Þar á meðal frumvarp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta, leigubílafrumvarp samgönguráðherra og frumvörp dómsmálaráðherra um annars vegar breytingar á lögum um mannanöfn og hins vegar breytingar á áfengislöggjöfinni.

Þá þykir ólíklegt að hægt verði að skapa sátt um stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Boðað hefur verið til fundar í stjórnarskipunar- og eftirlitsnefnd á morgun til að ræða þetta mál en samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki búist við að málið verði afgreitt úr nefndinni.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV