Aðeins um helmingsaðsókn í Janssen

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Aðeins um helmingur þeirra sem fékk boð í bólusetningu með bóluefni Janssen í Laugardalshöll í dag lét sjá sig. Heilsugæslan hefur því sent boð á nokkra árganga sem voru næstir í röðinni. Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Fólk á að drífa sig í bólusetningu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um þetta.

Vísir.is greindi fyrst frá dræmri mætingu í Laugardalshöll í dag. Ragnheiður segist ekki sjá merki um kynjamun, svo sem að konur veigri sér frekar við að mæta en karlar. Til stendur að bólusetja um það bil 10 þúsund manns í dag, starfsmenn í skólum og karla fædda 1984, 1977, 1997, 1985, 1976, 2000, 1988 og 1986 og konur fæddar 2000, 1981, 1980, 1988, 1977, 2001 og 2002. 

Ragnheiður segist ekki vita hvers vegna fólk mæti ekki en segir að þeim sem ekki vilji bóluefni Janssen standi til boða annað bóluefni á opnum dögum seinna í sumar. Ekki sé ljóst hvenær þeir verði. 

Þórólfur segir ljóst að bóluefnin hafi mismunandi orð á sér en ekki séu merki um meiri aukaverkanir af einu bóluefni en öðru. „Fólk á bara að drífa sig í bólusetningu og ef það þiggur ekki eitt bóluefni gæti það þurft að bíða þó nokkuð eftir öðru.“

 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV