23 tilkynningar um andlát eftir bólusetningu

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Í þá sex mánuði sem bólusett hefur verið við COVID-19 hafa 23 tilkynningar um andlát eftir bólusetningu borist Lyfjastofnun Íslands. Flestar tilkynningarnar bárust í janúar eða átta þegar elsti og hrumasti hópurinn var bólusettur með Pfizer. Ein tilkynning hefur borist um tímabundna lömun í útlim eftir bólusetningu með AstraZeneca og einn hefur þurt að leggjast inn á sjúkrahús eftir bólusetningu með Janssen.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt á vef Lyfjastofnunar Íslands. Þar eru tilkynningar vegna gruns um alvarlega aukaverkun eftir bólusetningu sundurliðaðar. Upplýsingarnar eiga að birtast á vef stofnunarinnar vikulega.

Alls hefur Lyfjastofnun borist 1.529 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun eftir bólusetningu, langflestar hafa ekki verið metnar alvarlegar.

Lyfjastofnun tekur fram að ekkert bendi til orsakasamhengis milli tilkynntra andláta og bólusetninga við COVID-19. Nærri 200 þúsund hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni og rúmlega 100 þúsund teljast fullbólusettir.

Pfizer notað fyrst og fyrir elsta fólkið

Tuttugu tilkynningar hafa borist um andlát eftir bólusetningu með bóluefni Pfizer en bóluefnið var það fyrsta sem var notað hér á landi auk þess sem elsta fólkið var bólusett með því. 

Það er líka það bóluefni sem hefur verið mest notað en rúmlega 100 þúsund hafa fengið að minnsta kosti einn skammt. 

Sextán andlát sneru að öldruðum, það er að segja fólki eldra en 75 ára. Þrettán þeirra voru með undirliggjandi sjúkdóma.

Þrjú andlát tengdust fólki á aldrinum 65-74 ára og voru tvö þeirra með undirliggjandi sjúkdóma. Einn var á aldrinum 60-64 ára og var viðkomandi með undirliggjandi sjúkdóm.

Aðeins ein tilkynning um alvarlega aukaverkun eftir Janssen

Tólf tilkynningar um alvarlega aukaverkun hafa borist eftir bólusetningu með Moderna en tæplega 20 þúsund hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefninu. 

Einn er sagður hafa verið í lífshættulegu ástandi og tíu hafa þurft að leita á sjúkrahús. Ein tilkynning taldist klínískt mikilvæg og var því flokkuð sem alvarleg.

Fjörutíu og tvær tilkynningar um alvarlega aukaverkun hafa borist eftir bólusetningu með AstraZeneca, þar af þrjú andlát. Um 60 þúsund hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefninu. Tvö af þessum andlátum voru hjá fólki sem var á aldrinum 65-74 ára og með staðfesta undirliggjandi sjúkdóma. Eitt andlát var hjá manneskju sem var á aldrinum 60-64 ára.

Tilkynnt hefur verið um 32 sem hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús, þar af tíu í lífshættulegu ástandi. Ein tilkynning hefur borist um tímabundna lömun í útlim ásamt öðrum tímabundnum einkennum.

Aðeins ein tilkynning hefur borist um alvarlega aukaverkun eftir bólusetningu með Janssen og þurfti viðkomandi að leggjast inn á sjúkrahús.

Nánast ómögulegt að bera bóluefnin saman

Lyfjastofnun bendir á að við túlkun þessara upplýsinga þurfi meðal annars að horfa til þess hversu margir hafi verið bólusettir. 

Þá segir Lyfjastofnun að beinn samanburður á milli bóluefna sé nánast ómögulegur þar sem ólíkt samsettir hópar hafa fengið mismunandi bóluefni. Stofnunin bendir einnig á að í fyrstu forgangshópum hafi meðal annars verið heilbrigðisstarfsfólk en því beri skylda að tilkynna um aukaverkanir. Sú skylda hafi áhrif á fjölda tilkynninga.

Jafnframt hafi aldraðir verið fremstir í forgangi og því hafi mátt búast við fleiri tilkynningum vegna bólusetningar í þeim hópi. „Hins vegar þarf ekki að vera um orsakasamband að ræða milli bólusetningar og tilkynntra tilvika.“

Lyfjastofnun, landlæknir og sóttvarnalæknir hafa fengið óháða sérfræðinga í lyflækningum til að rannsaka gaumgæfilega myndun blóðtappa og andlát sem tilkynnt hafa verið til Lyfjastofnunar Íslands eftir bólusetningu gegn COVID-19. Teknar verða fyrir fimm tilkynningar um andlát og fimm tilkynningar um myndun blóðtappa.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV