Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

11 fórust þegar hús hrundi eftir úrhelli í Mumbai

10.06.2021 - 04:38
Erlent · Hamfarir · Asía · Flóð · Indland · Veður
epa09258254 Indian people wade through a flooded street during heavy rain in Mumbai, India, 09 June 2021. Vehicular movements were affected and local trains were delayed due to heavy rains in the city.  EPA-EFE/DIVYAKANT SOLANKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst ellefu manns, þar af átta börn, létu lífið þegar íbúðarhús í fátækrahverfi Mumbai hrundi seint í gærkvöld. Sjö til viðbótar slösuðust, þar af ein kona lífshættulega. Óttast er að fleiri hafi grafist undir rústunum. Borgaryfirvöld segja gríðarmikla rigningu síðasta sólarhringinn hafa valdið því að húsið hrundi. Það var í afar bágu ástandi, illa byggt og enn verr við haldið.

Sömu sögu er að segja af fleiri húsum í næsta nágrenni, sem nú hafa verið rýmd af ótta við að þau gefi sig líka í úrhellinu. Í frétt AFP segir að algengt sé að ótraust, illa byggð og illa farin hús hrynji þegar monsúnrigningar ganga yfir Indland. Rigningartímabilið hófst í Mumbai í gær, með tilheyrandi flóðum og umferðaröngþveiti. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV