Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Verkferlum breytt vegna máls barnshafandi konu

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Verkferlum hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var breytt eftir að í ljós kom að þunguð albönsk kona fékk vottorð þess efnis að henni væri óhætt að halda í nítján stunda flug til heimalandsins árið 2019. Framkvæmdastjóri lækninga segir að brugðist verði við úrskurði landlæknis um málið í samráði við lögfræðing. 

Landlæknir ákvarðaði nýverið að læknirinn sem gaf vottorðið út á vegum Útlendingastofnunar hefði brotið gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn, lögum um útgáfu læknisvottorða og lögum um réttindi sjúklinga. 

Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóra lækninga hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir verkferlum hafa verið breytt í samráði við Útlendingastofnun. „Ábendingum og tilmælum frá landlækni er tekið alvarlega en erindi af þessu tagi eru ekki lengur hjá heilsugæslunni.“ 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins gefur því ekki lengur út vottorð af þessu tagi. „Við fórum strax í að fyrirbyggja að þessar aðstæður gætu komið upp aftur. Það eru bara breytt vinnubrögð hjá stofnuninni.“

Brugðist verður við í samráði við lögmann

Sigríður Dóra segir Útlendingastofnun væntanlega leita eftir þessum vottorðum hjá meðhöndlandi lækni hverju sinni. Erindi verði því hjá heilsugæslustöðvum eða eftir því sem vandamálin krefjast. 

„Við erum ekki með þessi erindi lengur. Þetta mál var mjög erfitt og við sáum það að við gátum ekki lagt það á okkar starfsfólk að sinna þessum erindum. Þetta voru ekki auðveld erindi þannig að við fórum í að endurskipuleggja alla okkar verkferla.“ 

Sigríður lítur það alvarlegum augum viðkomandi læknir hafi ekki enn hafa fengið niðurstöður landlæknis formlega í hendur. Hún segir lækninn hafa skrifað vottorðið í góðri trú en hafi hætt störfum og flutt af landi brott eftir að málið kom upp. 

Mikill missir sé af henni, en málið hafi reynst henni þungbært. Sigríður segir að brugðist verði við úrskurðinum í samráði við lækninn, sem hafi þrjár vikur til að bregðast við.

„Við eigum eftir að fara yfir þennan úrskurð eða tilmæli og því verður svarað með aðstoð lögmanns. Það eru kannski ekki allir sammála um áherslurnar eða hvað þetta þýðir í heildina.“