Vantar allt malt í þig?

09.06.2021 - 22:13
Mynd: Sigurþór Hjörleifsson / Sigurþór Hjörleifsson
Það er ekki ofsagt að maltölið sem Ölgerðin framleiðir sé samofið þjóðarsál Íslendinga enda hefur það verið á boðstólum frá því snemma á 20. öldinni. Í gegnum tíðina hafa margir staldrað við fögur fyrirheit sem staðið hafa á umbúðum drykkjarins frá öndverðu - en hve mikið er að marka þau? Síðdegisútvarpinu rann maltið til skyldunnar og ákvað að kanna málið.

Egils Maltextrakt - eða bara Maltöl - hefur verið á íslenskum markaði í næstum 110 ár en það var fyrst sett í sölu árið 1913. Glöggir þekkja umrædd loforð: „Nærandi og styrkjandi, gefur hraustlegt og gott útlit. Bætir meltinguna.“

Svo mörg voru þau orð, og Síðdegisútvarpið leitaði álits hjá Þórhalli Inga Halldórssyni, en hann er prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Þar með var stund sannleikans runnin upp.

Allra meina bót?

Aðspurður hvort eitthvað bendi raunverulega til þess að drykkurinn geri eitthvað af því sem hann boðar á umbúðunum segir Þórhallur að fari svolítið eftir því hvaða heimildir maður les. 

„Þetta er náttúrulega gosdrykkur sem inniheldur 15 grömm af kolvetnum á hverja 100 millilítra, en sáralítið af öðrum næringarefnum.“

Þórhallur bætir við að einhvers staðar megi lesa að maltölið innihaldi einhver andoxunarefni í snefilmagni, jafnvel að í drykknum sé fólginn einhver elixír sem sé allra meina bót. Það hafi þó aldrei verið formlega prófað með vísindalegum hætti.

En það er eitthvað þarna...

Engu að síður viðurkennir Þórhallur að óneitanlega sé eitthvað við maltið sem gefi því aðdráttarafl, einhvers konar ára ef svo má segja, sem gerir það að verkum að maður trúir á þetta.

Þórhallur er þó á því að það sé öðru fremur stórsnjallri markaðssetningu að þakka og nú sé svo komið að gildi þessara fullyrðinga á framhlið maltdósanna sé orðið menningarsögulegt og lítill skaði af þeim, enginn með réttu ráði taki þeim bókstaflega og búist fullum fetum við bættu útliti í kjölfar neyslu á malti.

Hins vegar sé ekki loku skotið fyrir tengingar við virkni í þörmum eða þarmaflóruna sem vert væri að skoða nánar. Loforðið um bætta meltingu er því kannski ekki alveg fráleitt?

Sárabót í bjórleysi

Loks bendir Þórhallur á að maltölið hafi að líkindum unnið sér sess í hjarta þjóðarinnar í gegnum alla þá áratugi sem bjór var með öllu bannaður á Íslandi, en bjórbannið stóð samfleytt í 74 ár, frá 1915 til 1989.

Maltið var jú  „svona hálfa leiðina í átt að bjór,“ bendir Þórhallur á. Er þá ótalin sú hefð sem Íslendingar hafa tamið sér um langan aldur að blanda malti við appelsínugos til hátíðabrigða.

Ekki sér fyrir endann á þeim siðvenjum og því ekkert sem bendir til annars en að maltölið fylgi okkur Íslendingum enn um sinn, hvað sem loforðum um hraustlegt og gott útlit líður.

Óþarfi að telja hitaeiningarnar!

Að endingu bendir Þórhallur á að maltið sé svaladrykkur sem ekki sé hugsaður til neyslu í lítravís. Ekki megi heldur gleyma því að hann hafi vafalaust létt lundina hjá landanum gegnum kynslóðirnar. 

„Sjálfsagt hefur hann veitt krökkum mikla ánægju sem og fullorðnum,“ segir hann og klykkir út með að minna hlustendur að maður eigi ekkert alltaf að vera að telja hitaeiningarnar.

Miklu nær sé að virða fyrir sé hinn fagurbrúna lit maltsins og velta því fyrir sér hvaða galdur sé fólginn í honum.

Dúkkar upp í dægurmenningunni

Hér má svo bæta við að gaman er að rifja upp hvernig maltið hefur reglulega skotið upp kollinum í poppkúltúr okkar Íslendinga, bæði í þýðingum á erlendu efni og svo innlendu.

Það rataði til að mynda í íslenska þýðingu á barnabók hins geysivinsæla danska barnabókahöfundar Ole Lund Kirkegaard, Pési grallaraspói og Mangi vinur hans, sem bókaútgáfan Iðunn gaf út fyrir jólin 1984.

Þar sagði meðal annars frá konu nokkurri sem átti sökótt við karluglu eina og lofaði krökkunum í hverfinu „glasi af maltöli með hunangi,“ ef þau næðu karli og jöfnuðu um hann. Ekki stóð á krakkaskaranum og þutu þau af stað.

Þá stakk hin langlundargeðja Marge, eiginkona Hómers Simpson, eitt sinn upp á því að hinn treggáfaði bóndi hennar gerði eitthvað markvert við líf sitt. Hómer brást vel við tillögunni og í íslenskri þýðingu spurði hann: „Eins og að fara í annað maltölsbað?“

Loks er eftirminnileg sjónvarpsauglýsingin frá því rétt fyrir síðustu aldamót þar sem rödd Flosa heitins Ólafssonar leikara spurði áhorfendur hvort það vantaði allt malt í þá.

Þáverandi landsliðsþjálfari í handbolta, Þorbjörn Jensson, lét sig ekki muna um að leika í auglýsingunni og pantaði bílfarm af malti fyrir mannskapinn.

Jón Agnar Ólason