Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tónlistarmenn bera saman hljóðgervla sína

Mynd: - / Wikimedia commons

Tónlistarmenn bera saman hljóðgervla sína

09.06.2021 - 15:05

Höfundar

Síðustu helgina í maí var svokölluð hljóðgervlamessa í Borgarbókasafninu í Grófinni í Reykjavík í tilefni af alþjóðlega hljóðgervladeginum. Þórður Ingi Jónsson fór á vettvang.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Alþjóðlegi hljóðgervladagurinn er haldinn hátíðlegur árlega á afmælisdegi Roberts Moog, sem bjó til fyrsta hljóðgervilinn, eða synþann, sem var aðgengilegur almenningi. Hljóðgervlar eru græjur sem breytt hafa hljóðheimi okkar og umhverfi og sumir kalla hljóðfæri hljóðfæranna.

Á hljóðgervlamessu í Borgarbókasafninu í Grófinni hittum við einvalalið íslenskra tónlistarmanna, sem öll mættu með græjurnar sínar, tengdu allt saman og leyfðu gestum að prófa og njóta. Við byrjum á Steinunni Harðardóttur, sem er betur þekkt sem dj. flugvél og geimskip.

„Þetta er syntamessan eða synþamessan – ég veit ekki hvort maður segir synþi eða synti! Það voru allir að koma með synþana sína til að leyfa öllum að prófa og þegar svona margir koma saman með synþa þá eru svo margir sem vilja prófa. Og sumar eiga kannski einhverja synþa sem er erfitt að fá, þannig þetta er svolítið skemmtilegt.“

Einn hljóðgervlanna sem Steinunn kom með er frá New York og lyktar að hennar sögn vel. „Hann er bleikur á litinn. Ég veit ekki af hverju það er svona góð lykt af honum. Síðan er einn sem maður verður að setja saman sjálfur sem heitir Shruthi Shruthaconfilter. Hann getur gert svona alls konar indversk drone-hljóð og svoleiðis. Síðan er svona Moog sem heitir Feitilíus litli sem pabbi minn gaf mér, lánaði mér hann fyrst en hann gaf mér hann síðan því ég var alltaf með hann í láni, held ég. Hann gerir rosa djúsí bassalínur og svona. Ég sampla hann rosa mikið. Hann er of þungur til að taka með sér á tónleika samt.“

En hvernig var það að alast upp á synþaheimili? „Það var mjög skemmtilegt og maður gat alltaf fengið að spila á hljómborð eða synþa. Ég vissi sko ekki að þetta hétu synþar en maður gat alltaf prófað að spila á orgel eða píanó eða eitthvað hljóðfæri. Mér finnst skrýtið að það alist ekki öll börn upp við það að spila hljóðfæri heima hjá sér.“

„Fólk hefur verið að koma hingað með krakkana sína, fólk sem á kannski engin hljómborð eða hljóðfæri, og krökkunum finnst það rosalega gaman. Þess vegna finnst mér að þetta ætti að vera haldið oftar, því það eiga ekki allir hljóðfæri. Á bókasafninu er hægt að prófa alls konar, ég komst að því að á bókasöfnum er hægt að fá saumavélar og alls konar. Sum bókasöfn eru með vínylskera, næluvélar og fleira. Hérna uppi á Borgarbókasafninu er Ableton Live og Logic og fólk getur komið í hljóðver og tekið upp. Þetta er bara endalaus uppspretta og þegar það er kalt úti þá er hægt að koma inn og hlýja sér og lesa eina bók. Og síðan kíkja aðeins í Ableton!“

Robert Moog var bandarískur eðlisverkfræðingur sem fæddist í New York-borg 23. maí árið 1934. Faðir hans var einnig verkfræðingur og vann í einni af verksmiðjum uppfinningamannsins fræga, Thomas Edison.

Við getum ekki ímyndað okkur nútímatónlist án framlags Roberts Moog. Hann gerði hljóðgervla aðgengilega fyrir heiminn. Sveinbjörn Beinteinsson eða Hermigervill segir okkur meira.

„Það mætti kalla hann föður hljóðgervlanna, en hann fann náttúrulega ekki upp það að búa til rafræn hljóð. Það sem hann gerði er að hann var frumkvöðull í að búa til staðal sem leyfði mismunandi litlum tækjum að tala saman. Áður en Moog kom til sögunnar þá var fólk með oscillatora, eða sveiflugjafa, síur og alls konar sem þau gátu tengt saman, en Moog einhvern veginn setti þetta allt saman, bjó til staðal sem tengir það saman, til að búa til að lokum hljóðfæri. Fyrsta hljóðfærið sem hann gerði var risastórt, á stærð við vegg, með öllum pörtunum sem tengjast saman. Staðallinn sem hann bjó til heitir volt per octave, sem þýðir að allt sem tengist saman, ef þú tengir hljómborð eða einhvern svona tónrunugjafa, þá veistu það að eitt volt gefur þér eina áttund, sem þýðir að einn tólfti af volti gefur þér eina hálfnótu upp.“

Síðan tók Moog þetta lengra, segir Sveinbjörn. „Hann var sá fyrsti sem hugsaði: Af hverju gerum við þetta ekki að einu meðfærilegu hljóðfæri, sem í staðinn fyrir að þú tengir allt saman með vírum þá erum við búin að ákveða að þetta er það sem flestir nota, þessar tengingar og þessir vírar. Hann setti það saman í hljóðfæri sem hét MiniMoog og það gjörbreytti tónlistarheiminum. Árið 1970 kom MiniMoog og þá allt í einu urðu rafhljóð aðgengileg fyrir hinn almenna tónlistarmann.“

Sem barn reyndu foreldrar Roberts Moog að kenna honum að leika á hörpu en hann hafði mun meiri áhuga á hljóðfærinu þeremín, einu fyrsta rafræna hljóðfærinu sem framkallar hljóð eftir bendingum og hreyfingum handa hljóðfæraleikarans yfir útvarpsloftneti. Hekla Magnúsdóttir er líklega þekktasti þeremínleikari Íslands.

„Þú getur ímyndað þér ósýnilegan streng frá líkamanum þínum að hægra loftnetinu. Þar eru allar nóturnar á þessum ósýnilega streng. Allir geta einhvern veginn nálgað þetta á sinn hátt. Ég lærði á selló og það er allt öðruvísi. Þar eru ákveðnar reglur sem þú verður að læra. Það eru reyndar líka ákveðnar hugmyndir með þeremínið en það er svo opið hvernig maður vill prófa það.“ Hekla segir að það hafi tekið dágóðan tíma að læra inn á hljóðfærið. „Ég var rosa lengi að reyna. Kannski fimm ár að spila almennilega.“

Næst kynnum við til leiks Arnljót Sigurðsson, sem gefur út tónlist undir nafninu Kraftgalli. „Ég er með strætó-setöppið mitt, ég get hent þessu í poka á bakið liggur við og borið þetta allt sjálfur með litlum tilkostnaði. Þá er ég með trommuheila og svona græju sem ég get prógrammerað alla músíkina á eins og hálfgert playback. Svo er ég með svona bassasynþa og vókóder tengt saman í mixer, með einhverjum litlum skrapatólum og skemmtilegum græjum, eins og þessi sem lætur bassann tala og segja sérhljóða. Ég kom með þetta til að sýna hvað þú þarft lítið til að spila jafnvel heilu tónleikana. Þetta eru kannski svona tíu kíló að þyngd.“

En gleymir maður ekki alltaf snúrum með svona græjum? „Jú, það er bölvun á hinum og þessum snúrum. Það er eins og þær vilji skríða af stað ofan í holræsi á næturna. En svo, ef maður er með þetta svona sitt á hvað, þá getur maður samt alveg leikið sér með restina.“

Eftir allt þetta synþatal var okkur farið að klæja í puttana þannig að við ákváðum að taka stuttan spuna á einum af fjölmörgum hljóðgervlum sem voru þarna til staðar, hönnuðum af sjálfum Robert Moog, og í stutta stund ómuðu salir Borgarbókasafnsins eins og hryllingsmynd eftir John Carpenter.