Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stjórnsýsla raforkumála er ekki að virka

09.06.2021 - 17:12
Mynd: Jóhannes Jónsson / Jóhannes Jónsson
Orkumálastjóri segir það slæm tíðindi að þriðji áfangi rammaáætlunar verði ekki afgreiddur á þessu þingi. Ljóst sé að stjórnsýsla raforkumála virki ekki sem skyldi. Forstjóri Landsvirkjunar segir tímabært að Alþingi velti fyrir sér hvernig þessi aðferð virki. Að hans mati sé komið að ákveðinni endastöð.

Stjórnsýslan ekki að virka

Það er alls ekki ljóst hvað verður um þriðja áfanga rammaáætlunar eftir að fyrir liggur að hann verður ekki afgreiddur á þessu þingi. Hann var upphaflega kominn í hendur þáverandi umhverfisráðherra haustið 2016. Í Speglinum í gær kom fram að þrír umhverfisráðherrar hafa mælt fyrir áfanganum sem kveður á um virkjanakosti flokkaða niður í nýtingarflokk, biðflokk og loks verndarflokk. Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri segir slæmt að afgreiðslunni verði frestað. Ljóst sé að stjórnsýsla raforkumála á Íslandi virki ekki sem skyldi.

„Já, það eru auðvitað afar slæm tíðindi að málið frestist. Stjórnsýsla raforkumála er ekki að virka. Þetta hefur auðvitað alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppnishæfni landsins vegna þess að þetta er það sem menn líta til þegar þeir eru að hugsa um iðnað og uppbyggingu og nýja atvinnukosti,“ segir Guðni. 

Virkur raforkumarkaður

Mikilvægt sé að það sé virkur raforkumarkaður til að mæta aukinni þörf, meðal annars í þurrum vatnsárum.

„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að orkutengdur iðnaður er um það bil einn þriðji af hagkerfinu okkar og sá stöðugasti hluti hagkerfisins sem malar áfram þó að ýmis áföll hafi dunið á okkur eins hrun og Covid og annað.“

Breytir ekki miklu fyrir Landsvirkjun

Hver eru viðbrögð þá Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, við að þriðji áfangi rammaáætlunar verði ekki afgreiddur á þessu þingi? Kemur það Landsvirkjun illa? Hann segir að enn eigi eftir að sjá hver niðurstaðan verður.

„Fyrir Landsvirkjun sem fyrirtæki breytir það ekki miklu. Við erum nú þegar með í nýtingarflokki þá kosti sem við myndum fara í á næstu árum. Þannig að við leggjum meiri áherslu á að það verði vönduð málsmeðferð og breið sátt,“ segir Hörður.

Þarf að finna nýjar leiðir

Spurningin er engu að síður hvort gangur málsins sé eðlilegur í ljósi þess að lögin um rammaáætlun kveða á um að það eigi að vinna áætlun á fjögurra ára fresti eða skemur.

„Jú, það er ekki nokkur vafi og ég held að það hljóti að vera tímabært að Alþingi velti því fyrir sér hvernig þetta verkfæri er að virka. Þetta var verkfæri sem átti að stuðla að sátt um þessi flóknu viðfangsefni. Þá getum við spurt okkur að því hvort það sé að takast þegar þetta tekur svona langan tíma og það er ekki hægt að afgreiða málin í þinginu

Hörður segir mikilvægt að finna leiðir til að taka ákvarðanir um þessi flóknu mál.

„Því sannarlega þarf framtíðin nýjar virkjanir. Ef við ætlum að standa í orkuskiptum og byggja upp öflugt atvinnulíf þurfum við að finna leiðir en við erum að lenda á ákveðinni endastöð finnst mér með þetta ákvörðunartökuferli,“ segir Hörður.

Nánar er rætt við Hörð og Guðna í Speglinum.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV