Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óvíst um áfrýjun í máli starfsmannaleigu

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Björn Líndal, lögmaður leigutaka atvinnuhúsnæðis og eiganda starfsmannaleigu sem í dag var dæmdur til fimm mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir að stefna starfsmönnum sínum í hættu með því að láta þá búa í ófullnægjandi húsnæði, segir ekki liggja fyrir á þessari stundu hvort niðurstöðunni verður áfrýjað.

Björn segist eiga eftir að fara betur yfir dóminn ásamt umbjóðanda sínum en getur þess þó að honum þyki ákæruvaldið ekki hafa tekið tillit til þess að lögum samkvæmt beri eigandi húsnæðis auk leigutaka ábyrgð á að það fullnægi skilyrðum um öryggi íbúa samkvæmt lögum um brunavarnir. Vanræki eigandi slíkar skyldur getur hann sætt refsiábyrgð. Ákæruvaldið hafi litið fram hjá þessari ábyrgð og fellt niður rannsókn gagnvart forsvarsmönnum eigenda.

Þá vekur það furðu Björns að forsvarsmenn eigenda húsnæðisins, þrír alls, hafi verið leiddir fram sem vitni af hálfu ákæruvaldsins. Það þyki honum sérkennilegt. „Umbjóðandi minn er þarna einn gerður ábyrgur sem leigutaki en eigendurnir sleppa. Þar af leiðir að málið er ekki í réttu formi, að mínu mati.“

Þá bendir Björn á að umbjóðandi hans hafi ekki fengið að nýta andmælarétt sinn vegna frumskýrslu Slökkviliðs Reykjavíkur, þrátt fyrir að lög kveði á um það. „Málsmeðferðin er því ekki í lagi, að mínu mati, og ég er ekki sammála því sem fram kemur í dómnum um þetta atriði. Málsmeðferð á rannsóknarstigi var verulegum annmörkum háð,“ segir Björn Líndal, lögmaður.