Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ortega bannfærir hvern mótframbjóðandann af öðrum

09.06.2021 - 05:21
epa08814794 A boy walks in front of a mural with the image of Nicaraguan President Daniel Ortega in Managua, Nicaragua, 11 November 2020. The president of Nicaragua, Daniel Ortega, turns 75 this Wednesday, without showing signs of wanting to leave power, after almost 14 consecutive years of mandate.  EPA-EFE/Jorge Torres
 Mynd: epa
Stjórn Daníels Ortega, forseta Níkaragva, heldur áfram pólitískum hreinsunum í aðdraganda forsetakosninga síðar á þessu ári. Tveir líklegir mótframbjóðendur hans voru handteknir í gær og eru þeir þá orðnir fjórir alls.

Felix Maradiaga, var handtekinn í gær eftir yfirheyrslur saksóknara í innanríkisráðuneytinu og útilokaður frá framboði. Í morgunsárið bárust svo fréttir af því að fjórði mögulegi mótframbjóðandi Ortegas, hagfræðingurinn Juan Sebastian Chamorro Garcia, hefði líka verið handtekinn í gær.

Áður höfðu ritstjórinn Cristiana Chamorro (frænka Chamorro Garcia),  og háskólaprófessorinn Arturo Cruz verið handtekin og úrskurðuð ókjörgeng. Öll fjögur eiga það sameiginlegt að tilheyra stjórnarandstöðunni og hyggja á framboð gegn Ortega. 

Chamorro var sökuð um peningaþvætti og úrskurðuð í stofufangelsi á meðan mál hennar er til rannsóknar.  Arturo Cruz var úrskurðaður í gæsluvarðhald á meðan saksóknarar rannsaka ásakanir á hendur honum um „ögrandi framgöngu ... og ráðabrugg um að skaða þjóðarheill.“

Maradiaga og Chamorro Garcia í raun sakaðir um landráð

Maradiaga er sakaður um enn alvarlegri hluti. Samkvæmt lögreglu sætir hann rannsókn vegna gruns um aðgerðir sem „grafa undan sjálfstæði, fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti [Níkaragva], hvetja til erlendra afskipta af innanlandsmálum og kalla eftir hernaðaríhlutun.“

Jafnframt er hann sakaður um að nýta sér „fjármagn frá erlendum öflum til að framkvæma hryðjuverk“ og annað sem valdið getur upplausn og óstöðugleika. Kæran byggist ekki síst á löggjöf frá síðasta ári sem bannar framboð hvers þess sem „leitar eftir, lofsyngur eða fagnar innleiðingu refsiaðgerða gegn Níkaragva.“

Chamarro Garcia er líka sakaður um að leggja á ráðin um hryðjuverk, með fjárhagslegum stuðningi erlendra afla, og um að hvetja erlend öfl til afskipta af innanríkismálum Níkaragva. 

Fyrrverandi skæruliðaforingi sem líður engin mótframboð

Ortega kennir sig við sósíalisma. Hann er fyrrverandi skæruliðaforingi og var þjóðarleiðtogi Níkaragva í rúman áratug eftir lok borgarastríðsins þar í landi 1979, fyrst sem formaður svokallaðrar Endurreisnarnefndar og svo sem fyrsti þjóðkjörni forseti landsins. Hann náði ekki endurkjöri 1990, en það gerði hann hins vegar árið 2007 og hefur verið endurkjörinn í tvígang, síðast árið 2017.

Mótframbjóðendur úr ýmsum áttum

Felix Maradiaga er leiðtogi Bláhvíta bandalagsins, hreyfingar sem spratt upp úr fjöldamótmælum gegn stjórn Ortegas árið 2018.  Hann er menntaður í stjórnmálafræði og alþjóðasamskiptum og með meistaragráðu í stjórnsýslufræði frá Harvardháskóla og var ráðuneytisstjóri í varnarmálaráðuneyti Níkaragva frá 2002 - 2006.

Cristiana Chamorro er blaðakona og ritstjóri stærsta dagblaðs Níkaragva. Hún stendur utan flokka en hefur verið afar gagnrýnin á stjórn Ortegas síðustu ár. Faðir hennar, Pedro Joaquín Chamorro Cardenal, var ritstjóri dagblaðs og harður andstæðingur einræðisstjórnar Somozas. Hann var myrtur 1978 og er talið að morðið á honum hafi aukið andúð fólks á Somozastjórninni og gefið Sandinistum og Ortega byr undir báða vængi. Móðir hennar, Violeta Barrios de Chamorro, sigraði svo Ortega í forsetakosningunum 1990 og var forseti landsins til 1997, fyrst kvenna.

Þriðji mótframbjóðandi Ortegas, sem búið er að handtaka og útiloka frá framboði, er Arturo Cruz. Hann er háskólaprófessor, menntaður í Bandaríkjunum og Bretlandi, sem studdi Sandinistahreyfinguna í æsku en sneri við þeim baki eftir að þeir náðu völdum í landinu. Það kom þó ekki í veg fyrir að Ortega skipaði hann sendiherra Níkaragva í Bandaríkjunum árið 2007, skömmu eftir að hann settist í forsetastólinn öðru sinni. 

Cruz er hægra megin í pólitíkinni og var forsetaframbjóðandi Bandalags frjálslyndra borgara, eina stjórnarandstöðuflokksins sem enn telst löglegur í Níkaragva. 

Sá fjórði er Juan Sebastian Chamorro Garcia, hagfræðingur, kaupsýslumaður og fyrrverandi leiðtogi Borgaralegs bandalags fyrir réttlæti og lýðræði.  Þau Cristiana Chamarro eru bræðrabörn.  Hann nam hagfræði í Bandaríkjunum. Hann hefur beitt sér fyrir breytingu á kosningalöggjöfinni síðustu mánuði, sérstaklega á skilyrðum fyrir sigri í fyrri umferð forsetakosninga.

Í Níkaragva þarf frambjóðandi einungis að fá 35 prósent atkvæða til að teljast rétt kjörinn forseti, án þess að þurfa að etja kappi við þann frambjóðanda sem næstur kemur í annarri umferð. Það þykir Chamorro Garcia full lítið og vill hækka þröskuldinn.