Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Haukur Guðlaugsson fyrrverandi söngmálastjóri níræður

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi L. Hauksson.

Haukur Guðlaugsson fyrrverandi söngmálastjóri níræður

09.06.2021 - 14:52

Höfundar

Haukur Guðlaugsson, fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, varð níræður fyrir skömmu. Auk þess að vera söngmálastjóri var Haukur organisti og kórstjóri áratugum saman.

Haukur fæddist á Eyrarbakka 5. apríl 1931. Það var engu líkara en forsjónin vildi tilkynna framtíðarstarf hans strax við fæðingu því það voru páskar og svo vildi til að þegar barnið fæddist hljómaði páskamessan í útvarpinu, með tilheyrandi orgelleik. Haukur hóf píanónám 13 ára gamall og lærði fyrst á Eyrarbakka og svo í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1951, en þar var Árni Kristjánsson hans helsti kennari. Eftir að hafa starfað í nokkur ár við tónlistarkennslu og kórstjórn á Siglufirði hélt Haukur utan til framhaldsnáms í orgelleik. Hann stundaði nám við Staatliche Hochschule für Musik í Hamborg þar sem kennari hans var Martin Günther Förstemann.

Fyrsta óperusýningin

Á námsárum sínum í Þýskalandi fór Haukur að sjá margar óperusýningar. Fyrsta óperan sem hann sá var Töfraflautan eftir Mozart og hafði hún mikil áhrif á hann, ekki síst þar sem í henni kemur fyrir lag sem Haukur þekkti frá bernskuárum sínum á Eyrarbakka: lagið sem notað er við jólasálminn „Í dag er glatt í döprum hjörtum“. Í óperunni heitir lagið „Bald prangt den Morgen zu verkünden“ og það eru þrír drengir sem syngja það. Haukur segir:

Það var alveg ógleymanleg sýning. Þeir stóðu ekki á sviðinu, þessir þrír drengir, sem sungu þetta heillandi verk, heldur voru þeir á bretti sem var híft niður á jafnsléttu og þar sungu þeir þetta. Þetta var afskaplega tilkomumikið og yndislega fallegt.

Ferðast með Akraborginni

Haukur tók próf árið 1960 og hélt þá aftur heim til Íslands. Hann var skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi 1960-1974 og organisti og kórstjóri Akraneskirkju 1960-1982 auk þess sem hann stjórnaði karlakórnum Svönum. 1974–2001 var Haukur söngmálastjóri íslensku þjóðkirkjunnar og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar. Þar sem hann bjó áfram á Akranesi fyrstu árin í þessu starfi þurfti hann oft að taka skipið Akraborgina á milli Akraness og Reykjavíkur, en Haukur átti ekki bíl á þessum árum heldur fór flestra sinna ferða á hjóli.

Nám hjá Fernando Germani

Árin 1966, 1968 og 1972 ferðaðist Haukur til Ítalíu til þess að stunda framhaldsnám í orgelleik í Róm. Hann lærði þá hjá þekktum organista, Fernando Germani, sem hafði verið organisti í Péturskirkjunni í Róm. Þetta atvikaðist þannig, að sögn Hauks:

Það vildi þannig til að það var ungur piltur hjá mér í karlakórnum á Siglufirði sem var ákaflega mikill listunnandi. Hann hafði verið á ferð í Reykjavík og komist þar yfir nokkrar plötur með leik Fernandos Germani. Ég fékk að hlusta á þetta hjá honum og þetta náttúrlega kveikti dálítið í mér að þetta væri maður sem mig virkilega langaði til að læra hjá. Svo komst ég ekkert í samband við hann. En svo var einu sinni maður staddur á Akranesi sem var að spila fyrir okkur, Karel Paukert, sem var hér. Hann spilaði á orgel í Akraneskirkju og ég sagði honum frá þessu. Hann sagði: „Germani, hann er vinur minn og ég ætla bara að skrifa honum.“ Svo einn góðan veðurdag var ég með bréf í höndunum frá Germani þar sem ég var boðinn velkominn til Rómar.

Ekki hættur að spila

Út hafa komið tveir geisladiskar með orgelleik Hauks, Organflóra 1 og 2, auk geisladiska þar sem hann stjórnar Karlakórnum Svönum og Kór Akraneskirkju. Og hann er ekki hættur að spila þótt hann sé orðinn níræður. Um það segir hann:

Ég spila alltaf á hverjum degi. Það er enginn dugnaður, ég bara get ekki annað.

Í þættinum „Á tónsviðinu“ á rás 1, fimmtudaginn 10. júní kl. 14.03, verður flutt viðtal við Hauk Guðlaugsson og leiknar hljóðritanir af orgelleik hans og kórstjórn.

Mynd: Haukur Guðlaugsson við orgelið heima hjá sér.