Greindist með heilaæxli og lét gamlan draum rætast

Mynd: Hulda G. / RÚV

Greindist með heilaæxli og lét gamlan draum rætast

09.06.2021 - 11:48

Höfundar

„Á menntaskólaárunum horfði maður á Seinfeld og það var leyndur draumur að verða uppistandari,“ segir Valdimar Sverrisson. Honum leist þó illa á að standa frammi fyrir hópi fólks. Eftir að heilaæxli á stærð við sítrónu olli því að hann missti sjónina horfði það betur við honum að standa á sviði.

Valdimar Sverrisson ljósmyndari greindist fyrir nokkrum árum með heilaæxli á stærð við sítrónu sem leiddi til þess að hann missti sjónina. Hann ákvað strax að takast á við fötlun sína með húmorinn að vopni og er óhræddur við að gera grín að sjálfum sér. Nú ætlar hann að stíga á svið í Hannesarholti á morgun og grínast fyrir Grensásdeild Landspítalans með uppistandi og myndbandssýningum þar sem fleiri grínarar koma við sögu.

„Fyrir sex árum er ég orðinn ansi undarlegur. Þá vissi ég ekki af því, en ég var kominn með heilaæxli á stærð við sítrónu sem þrýsti á framheilann,“ segir Valdimar í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. Æxlið hafði áhrif á skapferli hans, hann varð framtaks- og sinnulaus, og bragð- og lyktarskyn breyttist sömuleiðis. „Þannig að ég var farinn að haga mér ansi undarlega, eða eins og ég orða það: Ég var kexruglaður.“

Æxlið óx í meira en 10 ár

Fjölskylda og vinir tóku eftir breyttri hegðun Valdimars og reyndu að benda honum á það. Hann hummaði það hins vegar fram af sér. „Mér fannst þetta bara þvættingur.“

Læknar telja að æxlið hafi vaxið hægt og rólega í 10-15 ár. „Þegar þetta gerist svo hægt yfir langan tíma þá verður maður lítið var við þetta.“ Þegar sjónin hóf að daprast fór hann loks til sjónlæknis. „Augnlæknirinn sér strax að það er eitthvað mikið í gangi.“ Hann var sendur samstundis á Borgarspítala í frekari rannsóknir, þar sem æxlið kom loks í ljós. Honum var vissulega brugðið við tíðindin, en sló þó á létta strengi. „Læknirinn sagði að þetta æxli finnist yfirleitt í eldri konum. Þá sagði ég: Þið hafið reyndar ekki skoðað mig fyrir neðan mitti.“

Endurheimtir ekki sjónina með því að leggjast í þunglyndi

Eftir skurðaðgerðina, um mánuði síðar, kom í ljós að Valdimar hafði misst sjónina með öllu. „Ég hugsa með mér að sjónin hljóti að koma, þetta sé bara spurning um nokkra daga. Svo líða dagarnir og ég er sendur til augnlæknis en ekkert gerist. Ég hugsa með mér að ég geti ekki verið blindur, ég á konu og börn og er ljósmyndari. Þannig að ég ætlaði bara að leggjast í þunglyndi. En svo hugsaði ég að ég fengi ekkert sjónina aftur með því að leggjast í þunglyndi. Þannig að ég náði sem betur fer að taka þetta á æðruleysinu og húmornum.“

En hvernig er að verða blindur á fullorðinsaldri og þurfa að aðlagast nýjum aðstæðum? „Ég hugsaði sem svo, ég hef alla vega séð fram að þessum tímapunkti, séð dætur mínar og ferðast og annað. Ég gat alla vega verið ánægður með að vera áfram til staðar fyrir þær.“

Hann þurfti að finna önnur verkefni en ljósmyndun í þessari nýju stöðu og á Grensásdeild Landspítalans ákvað hann að láta gamlan draum rætast. „Á menntaskólaárunum horfði maður á Seinfeld og það var leyndur draumur að verða uppistandari. En að standa fyrir framan hóp af fólki var ekki alveg málið. En svo þegar ég missti sjónina áttaði ég mig á því að ég sá ekki framan í fólk, þannig að það ætti ekki að vera mikið mál.“

Rætt var við Valdimar í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ekkert sætt eða fyndið við útgöngubann í Edinborg

Leiklist

„Hvaða andskotans fíflagangur er þetta?“

Menningarefni

Óttast að þykja ekki fyndnir utan Reykjavíkur

Menningarefni

Geðveiki er gróðrarstía fyrir brandara