Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gagnrýna drög að nýjum reglum um öryggi í jarðgöngum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fjallabyggð gerir alvarlegar athugasemdir við drög að nýrri reglugerð um öryggismál í jarðgöngum sem er í vinnslu hjá samgönguráðuneyti. Það sé ekki boðlegt að gerðar séu mismiklar öryggiskröfur eftir aldri jarðganga og þá sé hvergi minnst á farsímasamband í göngum.

Núgildandi reglugerð um öryggismál gildir um öll jarðgöngin fern á hringveginum, en einnig önnur göng sem eru lengri en þúsund metrar og umferðarþungi er hvað mestur. Ný reglugerð nær yfir öll jarðgöng lengri en 500 metrar. Göngin eru þó flokkuð í þrennt eftir aldri og umferðarþunga og mismunandi öryggiskröfur gerðar fyrir hvern flokk.

Öll möguleg tækni eigi að vera í göngum yfir 500 metrum að lengd

Þessa flokkun gagnrýna bæjaryfirvöld í Fjallabyggð, en þar eru flest jarðgöng í einu sveitarfélagi hér á landi. Elías Pétursson, bæjarstjóri, segir að aldur ganga eigi ekki að skipta máli þegar umferðaröryggi sé annars vegar. „Við erum í grundvallaratriðum þeirrar skoðunar að þegar göng eru orðin lengri en 500 metrar, þá eigi að setja inn í þau þá tækni sem mögulegt er. Og það er ekki ásættanlegt að menn séu að undanskilja göng eiginlega út frá þeirri einu forsendu hvenær þau voru búin til.“

Óásættanlegt að hvergi sé minnst á farsímasamband í jarðgöngum

Drög að nýrri reglugerð eru í samráðsgátt stjórnvalda og þar taka Samband íslenskra sveitarfélaga og Samgöngufélagið meðal annars undir með Fjallabyggð. Sveitarfélagið hefur barist sérstaklega fyrir góðum fjarskiptum í öllum jarðgöngum og Elías segist því hafa búist við ákvæðum um það í nýrri reglugerð. Svo sé hins vegar ekki. „Þegar leitað er í reglugerðinni sem og öllum viðaukunum, þá til dæmis kemur hvergi nokkursstaðar fram þar eitthvað um farsímasamband, eða GSM. Og okkur finnst það vera óásættanlegt.“

Segir að Vegagerðin styðji farsímasamband í göngum

Og hann telur allt að því sjálfgefið að farsímasamband sé í öllum jarðgöngum. Þá hafi Vegagerðin á einum stað rökstutt lengra bil milli neyðarsíma í jarðgöngum með því að farsímaeign á Íslandi sé orðin svo almenn að þeir dugi sem öryggistæki. „Sums staðar tala þeir allavega í þá átt að farsímasamband sé það sem eigi að vera og við erum algerlega sammála því. En þess er ekki getið í reglugerðinni,“ segir Elías.