Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fagnar alzheimer-lyfi en varar við of mikilli bjartsýni

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn - rúv
Framkvæmdastjóri Alzheimer-samtakanna fagnar tilkomu lyfsins Aduhelm en varar þó við of mikilli bjartsýni enda fylgi lyfinu aukaverkanir, það sé dýrt og enn í þróun. Hafa þurfi í huga að það sé ekki ætlað til meðferðar við öðrum heilabilunarsjúkdómum.

Vilborg Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Alzheimer-samtakanna telur nýja lyfið vera eitt það jákvæðasta sem fram hefur komið í viðureigninni við sjúkdóminn.

Hún vekur athygli á að markaðsleyfi sé ekki veitt nema að loknum ítarlegum prófunum, niðurstöðurnar séu því raunhæfar. Lyfið lofi góðu og ætti að auka bjartsýni. 

„Þeir sýna líka fram á mjög alvarlegar aukaverkanir, heilabjúg, og það er eitthvað sem á eftir að skoða miklu betur áfram.“

Lyf sem fram kom fyrir tuttugu árum hægir á framgangi sjúkdómsins en virkar ekki jafn vel fyrir alla. Vilborg bendir á að líkamleg og andleg virkni geti hægt á framgangi sjúkdómsins.

„Það þarf að passa sig á að halda sér vel við líkamlega og andlega og við góða almenna heilsu. Það er til dæmis gott að takast á við eitthvað óvanalegt eins og að læra nýtt tungumál. Mikilvægt að ögra sjálfum sér andlega alla ævina.“ 

Hún kveðst vonast til að Lyfjastofnun Evrópu heimili notkun lyfsins Aduhelm, það sé þó ekki líklegt alveg á næstunni. Reynslan hérlendis sýni að erfitt sé að fá markaðsleyfi fyrir ný og dýr lyf.

„Þetta er líftæknilyf sem þarf að gefa í æð. Líftæknilyfin eru afskaplega dýr. Það kom fram í pistli sem Jón Snædal skrifaði fyrir okkur í gær að hann áætlar að skammturinn muni kosta 3,6 milljónir á ári fyrir eina manneskju.“

Hún segir fleiri lyfjafyrirtæki langt komin með þróun og rannsóknir á lyfjum gegn sjúkdóminum. Því geti fleiri lyf verið á leiðinni. Lyf sem fram kom fyrir tuttugu árum hægir á framgangi sjúkdómsins en virkar ekki jafn vel fyrir alla. 

„Þessu lyfi er sérstaklega beint að alzheimer-sjúkdómnum og þessum próteinúrfellingum í heila sem eru einkennandi fyrir þennan eina ákveðna sjúkdóm.“

Vilborg bendir á að heilasjúkdómar geti verið af ýmsu tagi. 

„Við erum með mun fleiri tegundir af heilabilun sem eru af ýmsum öðrum orsökum. Þannig að fólk má ekki draga þá ályktun að þetta lyf muni hjálpa öllum.“