Endurskoða þarf verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu

„Það má alltaf gera betur, eitt af því sem þarf að skoða er verkaskipting í heilbrigðiskerfinu og tilfærsla verkefna milli fagstétta,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga en að ekki sé að ástæðulausu að hjúkrunarfræðingar sinni ýmsum stjórnunarstörfum.

Ófremdarástand er á bráðamóttöku Borgarspítalans vegna þess að ekki næst að manna vaktir hjúkrunarfræðinga. Landlæknir sagði í fréttum í gær að ástandið hafi aldrei hafa verið jafnslæmt. 

Meta þarf hverjum ber að sinna hvaða starfi á sjúkrahúsum og sjá til þess að starfsfólk sé á réttum stað segir Guðbjörg, sem var gestur í Kastljósi kvöldsins.  Hún kveður hjúkrunarfræðinga oft hafa mjög yfirgripsmikla sérþekkingu og reynslu.

Nám þeirra sé heildstætt, fjölbreytt og að það gefi yfirgripsmikla þekkingu og innsýn. „Þeir hjúkrunafræðingar sem fara í svona störf, verkefnastjórastörf, hafa sérþekkingu sem þeir hafa öðlast í gegnum klínískt starf sitt.“

Þá sérfræðiþekkingu þurfi en jafnframt verði að gera betur við að taka til og reyna að fá rétt fólk á réttan stað. Skoða þurfi betur hvaða störf eigi heima hjá hverjum en að sögn Guðbjargar háir þetta spítalanum ekkert frekar eða jafn mikið og öllum hinum.

Guðbjörg sagði að um 300 hjúkrunarfræðingar hafi ekki unnið ekki við fagið árið 2017, en slíkur fjöldi gæti gert heilmikið fyrir heilbrigðiskerfið. „Það þarf að ná þeim til starfa inn í heilbrigðiskerfi en margt spilar inní, meðal annars er verið að berjast við starfsumhverfi, álag og laun.“

Árangurs samninga þegar tekið að gæta

Guðbjörg rifjaði upp harða kjarabaráttu hjúkrunafræðinga sem lyktaði með gerðardomi í haust. Þá var samið um betri vinnutíma, og árangurs þess er þegar tekið að gæta.

„Álagið er gífurlegt og vinna þarf bug á því. Verið er að bæta vinnutímann hjá fólki í vaktavinnu. Það var samið um að það sem telst 100% vinna er í raun 80% prósent hjá fólki á erfiðustu vöktunum.“

Guðbjörg segir vinnuviku hjúkrunarfræðinga nú vera 32 til 36 klukkustundir í stað 40 stunda áður.

Hún segir að álagið sé það mikið að fæstir treysti sér til að skila 40 vinnustundum en að um 96% vaktavinnufólks vinni jafnmargar klukkustundir og áður en starfshlutfallið breyttist. 

„Það verður að segjast að mjög fáir nái að að vera í fullri vaktavinnu miðað við 40 stunda vinnuviku. Meðalstarfshlutfall er milli 70 og 75% og um 2/3 starfsfólksins vinna vaktavinnu.“

Guðbjörg álítur mikinn lærdóm til framtíðar mega draga af kórónuveirufaraldrinum. Heilmikil breyting hafi orðið á vissum verkefnum og störfum sem hafa verið flutt milli stétta.

Starfsfólkið sé þó orðið langþreytt eftir erfiða mánuði í baráttu við faraldurinn, það hafi staðið sig geysilega vel, en nú þarfnist það þess að komast í sumarfrí. 

Hjúkrunarfræðingar kenna á meðan þeir sinna öðrum störfum

Þörfin eykst fyrir hjúkrunarfræðinga en ekki útskrifast nógu margir til að uppfylla hana. „Hjúkrunarfræðingar eru fjölmennasta heilbrigiðsstéttin og þörf er fyrir hana frá vöggu til grafar.“

Það skortir fjármagn til að taka á móti öllum hjúkrunarnemum inn í heilbrigðiskerfið. „Það vantar fjármagn til að borga fólki við að vera til staðar og kenna nemendum. Fólkið sem fyrir er á vaktinni tekur að sér kennslu meira og minna á sama tíma og verið er að sinna sjúklingum.“

Guðbjörg minnir á að hér á landi er klassískt háskólaár sem nýtir ekki alla tólf mánuði ársins en verið sé að kanna hvort mögulegt sé að flytja eitthvað til. Háskóli Íslands hafi stofnað sérstaka námbraut fyrir fólk með aðra háskólagráðu og vill leggja stund á hjúkrunarfræði.

„Þegar hafa verið teknir inn 22 einstaklingar sem eru í námi og eru inni á þeim tíma sem hinir grunnnemendurnir eru ekki, yfir sumarið, alveg fram að jólum og á meðan hinir eru í prófum.“

Guðbjörg segir tækifæri skorta til að fjölga megi í verknámi en til þess þurfi fé. „Þetta er eitt skemmtilegasta starf í heimi. Fleiri sækja um komast að hjá Háskóla Íslands og á Akureyri og fleiri standast próf en hægt er að hleypa áfram.“

Erlendir hjúkrunarfræðingar, til að mynda frá Fillipseyjum og Póllandi, standa sig gríðarlega vel hér að sögn Guðbjargar. Lúta þurfi Evrópulöggjöf varðandi starfsleyfi en Guðbjörg segir landlækni mjög áfram um að straumlínulaga ferlið og koma því betra form.