Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Eigandi starfsmannaleigu dæmdur fyrir hættulegt húsnæði

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi eiganda starfsmannaleigu í dag til fimm mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar. Maðurinn var ákærður fyrir að stefna starfsmönnum sínum í hættu með því að útbúa fyrir þá búseturými í iðnaðarhúsnæði sem hann réði. Þegar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins tók húsnæðið út taldi það til margvíslega hættu sem íbúum var búin.

Maðurinn, sem búsettur hefur verið í Noregi, var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur nú upp úr hádegi. Héraðssaksóknari sagði í ákæru sinni að maðurinn hefði í ábataskyni og á ófyrirleitinn hátt stofnað heilsu og lífi 24 starfsmanna starfsmannaleigunnar í augljósan háska. Maðurinn hefði útbúið búsetu fyrir mennina í iðnaðarhúsnæði sem hann leigði við Smiðshöfða í Reykjavík.

Slökkviliðið sagði að engin brunahólfun væri í iðnaðarhúsnæðinu þar sem maðurinn útbjó búsetuaðstöðu fyrir þá sem unnu hjá starfsmannaleigu hans. Þar að auki væru flóttaleiðir ófullnægjandi, íkveikjuhætta væri vegna starfseminnar sem fór fram í húsinu og eldhætta vegna þess að innveggir og gistirými voru úr auðbrennanlegu efni. Þessu til viðbótar var ástand raflagna óásættanlegt samkvæmt úttekt slökkviliðsins.

Mikil umræða varð um hættulegar aðstæður í ósamþykktu húsnæði sem leigt hefur verið erlendu starfsfólki og starfsmönnum starfsmannaleiga eftir eldsvoðann við Bræðaborgarstíg í júní í fyrra. Þrennt fórst í þeim eldsvoða. Mjög skorti á brunavarnir í húsinu sem hafði verið breytt án tilskilinna leyfa. Áætlað hefur verið að fimm til sjö þúsund manns búi í ósamþykktu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Leiðrétt: Upphaflega sagði að maðurinn hefði átt húsnæðið en hann leigði það og hafði til yfirráða.