Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Dómurinn sendir skýr skilaboð

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. - Mynd: RÚV/Guðmundur Bergkvist / RÚV/Guðmundur Bergkvist
Eigandi starfsmannaleigu var í dag dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stefna lífi erlendra verkamanna í bráða hættu þegar hann hýsti þá við hættulegar aðstæður í iðnaðarhúsnæði. Þetta er fyrsti dómur sinnar tegundar. Slökkviliðsstjóri fagnar dómnum og segir hann senda skýr skilaboð.

Málið komst upp í ársbyrjun 2018 þegar lögregla rannsakaði þjófnað að Smiðshöfða. Þá kom í ljós að þar bjó vel á þriðja tug erlendra verkamanna. Búið var að smíða utan um þá svokallaða svefnkassa úr spónaplötum, engar brunavarnir eða flóttaleiðir til voru staðar og eldshætta var mikil. Í niðurstöðu dómsins segir að brot mannsins séu alvarleg og að hann hafi stefnt lífi margra í bráða hættu með vanrækslu sinni.

Saksóknari í málinu er sáttur við niðurstöðuna, enda í fyrsta skipti sem sakfellt er fyrir brot af þessu tagi. „Það hefur auðvitað þýðingu. Þarna kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að í þessu tilviki umráðamaður fasteignar sem er þá leigutaki beri refsiábyrgð á því að breyta húsnæðinu með þessum hætti og að brunavörnum sé áfátt. Þarna er auðvitað kominn dómur sem að hefur þá væntanlega fordæmisgildi,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari.

Ekki spurning hvort heldur hvenær kviknað hefði í

Myndir sem slökkviliðið á vettvangi tók sýna að mikill eldsmatur var í húsnæðinu og var það mat sérfræðinga sem gáfu skýrslu fyrir dómi að ekki hefði verið spurning hvort heldur hvenær kviknað hefði getað í. Það var ákvörðun slökkviliðsins að leggja inn kæru vegna málsins. „Það í raun og veru var bara ekkert annað í boði. Staðan var bara þannig að við urðum að láta reyna á lögin og fá úr því skorið hvar við stæðum.,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri.

Jón Viðar segir dóminn fagnaðarefni. Hann sendi mjög skýr skilaboð og til þess fallinn að hafa fælingarmátt. „Ef hann hefur það ekki væri það mjög slæmt. Þarna eru mjög skýr skilaboð að ábyrgðin er eigandans að brunavarnir séu í lagi.“

Dómurinn sé mikilvægur að því leyti að hann eigi við um brunavarnir almennt, en ekki aðeins um iðnaðarhúsnæði. Það verði allir sem leigja húsnæði til þriðja aðila að hafa í huga. „Við erum núna að fara í kortlagningu í haust á óleyfisbúsetu og þá fáum við gleggri mynd af stöðunni. Og þá höfum við þennan dóm í okkar umsjón og beitum honum.“

Verjandi telur eigendur hafa sloppið

Björn Líndal, verjandi eiganda starfsmannaleigunnar, segir ekki ljóst á þessari stundu hvort dóminum verði áfrýjað. Sakborningurinn er búsettur erlendis og var ekki viðstaddur dómsuppsögu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Það vekur furðu Björns að forsvarsmenn eigenda húsnæðisins, þrír alls, hafi verið leiddir fram sem vitni af hálfu ákæruvaldsins. Það þyki honum sérkennilegt. „Umbjóðandi minn er þarna einn gerður ábyrgur sem leigutaki en eigendurnir sleppa. Þar af leiðir að málið er ekki í réttu formi, að mínu mati.“

Mál gegn eigendum húsnæðisins var fellt niður og segir Kolbrún að það hafi verið mat ákæruvaldsins að eigandi starfsmannaleigunnar, sem leigði húsnæðið, hafi farið í óleyfilegar framkvæmdir á húsnæðinu og bæri þar af leiðandi ábyrgðina á þeim. „Það hafi í raun verið án vilja og vitundar eigenda. En auðvitað geta málin verið misjöfn. Í þessu máli var þessu svona háttað og ákært með þessum hætti en svo kunna aðstæður að vera öðruvísi í öðrum málum.“