Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Akureyri verði menningarhöfuðborg Evrópu

09.06.2021 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Á hverju ári útnefnir Evrópusambandið tvær borgir eða bæi í Evrópu sem menningarhöfuðborg Evrópu. Menningarfélag Akureyrar telur að Akureyri eigi fullt erindi til að bera þessa nafnbót og hvetja bæjaryfirvöld til að stefna að því árið 2030.

Menningarhöfuðborg Evrópu 2030

Framkvæmdastjóri Menningarfélagsins, Þuríður Helga Kristjánsdóttir, telur að Akureyri geti fyllilega staðið undir nafnbótinni og eigi að setja stefnuna á að verða gjaldgengur umsækjandi. Tilgangurinn með verkefni Evrópusambandsins um menningarhöfuðborgir er að draga fram ríkulega og fjölbreytta menningarflóru Evrópu, fagna sameiginlegum áherslum í menningarmálum Evrópubúa og auka þannig samkennd. Það þykir einnig mikilvægt að sýna fram á þátt öflugs menningarlífs á þróun borga. Evrópusambandið hefur frá árinu 1985 veitt tveimur borgum innan Evrópu þennan titil en Reykjavík var menningarhöfuðborg árið 2000. Menningarfélagið vill að Akureyrarbær stefni á að verða menningarhöfuðborg árið 2030 en þá verða 30 ár frá því að Reykjavík hélt titlinum.

Stórt tækifæri fyrir Akureyri

„Við lítum á þetta sem ákveðið tækifæri fyrir Akureyri, bæði til þess að lyfta upp menningarlífinu og sýna alla þá starfsemi sem fer hér fram og þá atvinnumennsku sem á sér stað í menningarmálum. Tilgangurinn sé þó einnig að komast í samband og samvinnu við fólk sem starfar við menningarmál í Evrópu og líta á þessa nafnbót og sem því fylgir sem tækifæri til framþróunar í menningarmálum,“ segir Þuríður.

Aðspurð segir hún ávinning af nafnbótinni í fyrsta lagi vera að vekja athygli á því að á Akureyri fari fram ríkt menningarstarf. „Við sjáum fyrir okkur að auka innlent og erlent samstarf og það feli í sér tækifæri fyrir listrænt og skapandi fólk að hafa að slíku langtímamarkmiði að stefna að. Það ætti líka að hafa jákvæð áhrif á framþróun í bænum og þá ekki eingöngu á sviði menningar.“

Bæjaryfirvöld verði að setja sér skýra þróunarstefnu

Menningarfélagið skorar á Akureyrarbæ að stefna að því sækja um að verða menningarhöfuðborg. Eitt af skilyrðum fyrir þátttöku er að til sé ákveðin þróunarstefna í málaflokknum hjá viðkomandi borg eða bæ. Þuríður sér þarna tækifæri fyrir bæinn til að mynda sér langtímasýn í þróunar-, menningar- og menntamálum og í raun öllu því sem við kemur samfélaginu á Akureyri og nærsveitum. Þá skorar félagið einnig á samtök sveitarfélaga að sýna verkefninu stuðning því það styrki einnig og efli menningarstarf í nágrannasveitarfélögum Akureyrar.

Getur bær verið borg?

Akureyri er ekki skilgreind sem borg. Getur hún þá orðið menningarhöfuðborg?. „Við yrðum væntanlega minnsta menningarhöfuðborg Evrópu til þessa.“ Akureyri sé stór á íslenskan mælikvarða og þar starfrækt menningarstarfsemi á pari við það sem gerist í mun stærri borgum. Þar er til að mynda rekið atvinnuleikhús, sinfóníuhljómsveit og stórt menningarhús, Hof, sem getur tekið á móti miklum fjölda gesta á viðburði og ráðstefnur. Því eigi bærinn Akureyri fullt erindi sem menningarhöfuðborg Evrópu.