Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sannfærð um að hálendisþjóðgarður verði að veruleika

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þingmenn stjórnarandstöðunnar þráspurðu forsætisráðherra á Alþingi í dag hvort enn væri stefnt að því að afgreiða frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð á yfirstandandi þingi. Engin sátt hefur ríkt um málið innan stjórnar og stjórnarandstöðu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist þó sannfærð um að stofnaður verði þjóðgarður á hálendinu. Það sé hin rétta stefna, ekki aðeins fyrir náttúruvernd á Íslandi heldur landið í heild.

Þetta kom fram í máli Katrínar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Katrín svaraði þar fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem átaldi fyrrum flokkssystkin sín úr Vinstri grænum fyrir að hafa ekki náð að koma frumvarpi um hálendisþjóðgarð, sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála, í gegnum þingið. 

Hefði kosið að málið væri komið lengra

Ekkert bendir til þess að frumvarp umhverfisráðherra um þjóðgarðinn, sem lagt var fram í upphafi árs, verði samþykkt fyrir kosningar nú þegar örfáir dagar lifa þings. Katrín sagði mikilvægt að vanda til verka um svo stórt mál og benti á að um 200 umsagnir hefðu borist um frumvarpið. Hún segir mikilvægt að afgreiða málið í sátt.

„Að sjálfsögðu hefði ég kosið að málið væri lengra komið hjá nefndinni. Ég sit ekki við borðið þar og átta mig ekki nákvæmlega á því hvernig það hefur gengið. En það breytir því ekki að þetta mál er risastórt mál sem verður á dagskrá hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði áfram,  hvað sem verður um það hér og nú, af því að þetta er gott mál fyrir þjóðina. Þetta er gott mál fyrir Ísland og þetta er gott mál fyrir náttúruvernd í heiminum,“ sagðir Katrín.

Einstakur ósigur umhverfisráðherra

Rósa Björk, sem gekk úr þingflokki Vinstri grænna síðasta haust, sagði í ræðu sinni einsýnt að andstaða Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefði ráðið því að frumvarpið næði ekki fram að ganga.

Þrátt fyrir að umhverfisráðherra hefði gengið að kröfum andstæðinga frumvarpsins og ekki útilokað virkjanir í jaðri fyrirhugaðs þjóðgarðs, hefði ekki náðst að koma málinu í gegn. „Það hlýtur að teljast einstakur ósigur að taka svo umdeilt skref í að opna á nýjar virkjanir á jaðri þjóðgarðsins og missa almennan stuðning við miðhálendisþjóðgarð svo rækilega úr höndunum, úr 63% stuðningi árið 2019 niður í 31% í desember síðastliðnum,“ sagði Rósa Björk.

Málið hið vandræðalegasta fyrir ríkisstjórnina

Þá sagði hún fyrirslátt að kenna skömmum fyrirvara um, enda hefði frumvarpið verið í vinnslu allt kjörtímabilið og komið seinna fram en nauðsynlegt hefði verið. Vísaði hún máli sínu til stuðnings í orð Sigurðar Inga Jóhannssonar og Bjarna Benediktssonar sem báðir hafa útilokað að frumvarpið verði samþykkt í núverandi mynd á kjörtímabilinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins, sagði að málið væri orðið hið vandræðalegasta fyrir ríkisstjórnina. „Væri það hæstvirtum ráðherra meira að skapi að málið dagaði einfaldlega uppi eða myndi hæstvirtur ráðherrann frekar vilja að nefndin vísaði málinu frá eða vísaði því aftur til ráðherra með formlegum hætti?“ spurði Sigmundur Davíð.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV