Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Margháttað og skapandi

Mynd með færslu
 Mynd: postdreyfing - Stundum þunglynd ... alltaf and

Margháttað og skapandi

08.06.2021 - 10:20

Höfundar

Fyrsta breiðskífa BSÍ ber hinn fróma titil Stundum þunglynd... en alltaf andfasísk. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

BSÍ er dúett þeirra Sigurlaugar Thorarensen og Julius Pollux Rothlaender og á að baki að minnsta kosti eina stuttskífu sem út kom fyrir þremur árum. Bæði sinna þau tónlistinni einnig á öðrum vettvangi (sillus og Julius Pollux) en BSÍ átti að vera staður þar sem þau kæmu saman og léku á hljóðfæri sem væri þeim framandi. Sigurlaug spilar til dæmis á trommur á meðan Julius leikur á bassa en svo er ýmislegt annað brúkað líka. Alison MacNeil sá um upptökur í Reykjavík, Thomas Götz sá um upptökur í Berlín, Francine Perry hljóðblandaði í London og Sarah Register hljómjafnaði í New York. Vá, alþjóðlegt!

Ekkert okkar hefur tíma í neitt lengur og því er það jákvætt þegar tónlistarmennirnir spara manni vinnuna lítið eitt. Venjulega er tónlistarfólki ófært að lýsa eigin tónlist („þetta er eiginlega ekki líkt neinu.“ Einmitt!) en þegar BSÍ segja að þessi plata „skiptist í fimm melankólísk ástarsorgarlög á móti fimm hraðari og pönkaðri lo-fi-krútt-popp-pönklögum“ þá eru þau að negla lýsinguna fullkomlega. Tónlistin, heilt á litið, er þannig einhvers konar neðanjarðarpopp/rokk, jafnvel síðpönk, en tvíeykið fer í býsna fjölskrúðugar áttir með þetta allt saman.

„My lovely“ er til dæmis einslags ballaða, vel heppnuð, á meðan „Tal 11“ er hryssingslegra, leitt af flottum og hörðum gítarhljómi. Sigurlaug syngur og gerir það vel, er með hlýja, lokkandi rödd sem hún teygir og togar eins efnið kallar eftir. Seinni hlutinn er rokkaðri eins og segir. „Vesturbæjar Beach“ er gaddavírspopp að hætti Glasgow og „Dónakallalagið“ stendur vel út úr stíllega, hálfgerð öskurorgía og vel heppnuð sem slík. Í „Alltaf alltaf stundum alltaf“ flíkar sveitin pólitík, lagið er rofið með leiknu símtali inn á Útvarp Sögu hvar allar rasísku klisjurnar fá að hljóma. Drepfyndið! Þessi plata stendur vel þegar allt er saman tekið. Það er ekki einfalt að lýsa henni nákvæmlega og þó að maður kannist við hin og þessi áhrif minnir þetta mig ekki á eitthvað eitt sérstaklega sem er kostur. Þetta er að því leytinu til frumlegt. Að sama skapi sýnist mér rúm fyrir frekari framþróun og þéttingu. Kostur plötunnar liggur í fjölbreytninni en þar er líka fall hennar falið ef mér leyfist að orða það svo því að dúettinn er mislangt kominn með einstakar áherslur. Sum lög virka afar vel á meðan önnur eru meira í ætt við skissur. En konseptið, hugmyndirnar, áræðið og áherslurnar trompa einstök lög og um að gera að þróa þetta frekar áfram.

Tengdar fréttir

Popptónlist

BSÍ – Stundum þunglynd... en alltaf andfasísk