Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kvikmyndasumarið er hafið

08.06.2021 - 16:05
SAMSUNG CSC
 Mynd: Donald Tong - Pexels
Kvikmyndaárið er blómlegt að sögn forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Lokið verður við gerð fjölmargra íslenskra kvikmynda á árinu.

Fjöldi íslenskra kvikmynda er í vinnslu auk heimildamynda, stuttmynda og leikins sjónvarpsefnis. Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands segir kvikmyndaárið blómlegt. Segja megi að íslenskt kvikmyndasumar sé hafið.
Tvær íslenskar kvikmyndir eru sýndar í kvikmyndahúsum eins og er, annars vegar kvikmyndin Alma eftir Kristínu Jóhannesdóttur og hins vegar Saumaklúbburinn eftir Rannveigu Jónsdóttur.

Abbabbabb, dans- og söngvamynd fyrir alla fjölskylduna í leikstjórn Nönnu Kristínar Magnúsdóttur er langt komin í tökum. Sömu sögu er að segja um Skjálfta eftir Tinnu Hrafnsdóttur. Er það frumraun hennar í kvikmynd í fullri lengd.

Birta eftir Braga Þór Hinriksson er langt komin í eftirvinnslu. Sömu sögu er að segja um leikna mynd sem heitir Leynilögga, eftir Hannes Þór Halldórsson Það er fyrsta leikna mynd hans í fullri lengd. Wolka, kvikmynd eftir Árna Óla Ásgeirsson heitinn er fullgerð og verður sýnd á Íslandi fljótlega. Allra síðasta veiðiferðin er í tökum. Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson leikstýra. Sú mynd ratar í kvikmyndahús á árinu ef veiðiferðin tekst vel.

Í júní fer myndin Skuggahverfið eftir Jón Gústafsson í almennar sýningar. Sú mynd var sýnd á kvikmyndahátíðinni Riff. Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands segir vel hafa gengið í baráttunni við kórónuveiruna í kvikmyndaheiminum. Gott verklag hafi náðst á meðal kvikmyndagerðarmanna í samvinnu við sóttvarnarlækni um vinnulag í tökum. Unnt hafi verið að halda úti tökum að mestu leyti. Kvikmyndalið hafi hafi verið lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á ýmsum stöðum. 

Fleiri kvikmyndir í vinnslu
Fleiri íslenskar kvikmyndir eru í vinnslu. Sumarljós og svo kemur nóttin, eftir sögu Jóns Kalmans, en Elvar Aðalsteins er leikstjóri hennar, sem og Svar við bréfi Helgu eftir sögu Bergsveins Birgissonar í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur. Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson er einnig í framleiðslu. Þessar þrjár kvikmyndir verða væntanlega sýndar á næsta ári. 

Íslendingar eiga einnig hlutdeild í erlendum verkefnum, meðal annars í norrænu stórverkefni um Margréti fyrstu sem sameinaði Norðurlöndin í eitt konungdæmi. Þá má nefna að við Breiðafjörð standa yfir tökur á kvikmyndinni Woman at sea sem franskir framleiðendur standa að. Laufey Guðjónsdóttir kveðst sannfærð um að íslenskt kvikmyndasumar sé tekið við af íslenska kvikmyndavorinu.
 
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir