Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hagsmunir Bændasamtakanna látnir ráða för

08.06.2021 - 13:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Félag atvinnurekenda lýsir yfir vonbrigðum með að ekki hafi verið samið um aukna fríverslun með búvörur í fríverslunarsamningi Bretlands og Íslands, sem undirritaður var á föstudag.

Þar hafi svarin andstaða Bændasamtakanna verið látin ráða för. Þá furðar hann sig á að ekki hafi verið haft ríkara samráð við hagsmunaaðila við gerð samningsins.

Við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu undirrituðu EFTA-ríkin bráðabirgðasamkomulag við Bretland sem tryggði nær óbreyttan markaðsaðgang frá því sem fyrir var, en vinna hófst síðan við gerð varanlegs fríverslunarsamnings og var hann samþykktur á föstudag.

Ekki höfð með í ráðum

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir í samtali við fréttastofu að þau tíðindi hafi komið honum á óvart. Hann hafi ekki verið meðvitaður um að viðræður væru á lokastigum fyrr en greint var frá því opinberlega.

Því hafi honum þótt furðulegt að lesa í Morgunblaðinu í morgun að Bændasamtökin hefðu setið fundi í ráðuneytinu vegna málsins og getað komið sínum athugasemdum á framfæri.

„Það er full ástæða til að leita sjónarmiða víða þegar verið er að gera svona samninga. Það hefði verið full ástæða til að gera það hjá versluninni, hjá samtökum neytenda og Samkeppniseftirlitinu jafnvel,“ segir Ólafur.

Meiri kvóti í boði

Í samningnum er kveðið á um tollfrjáls viðskipti á flestum vöruflokkum, ef frá eru taldar búvörur. Samið er um tollfrjálsan innflutning á 692 tonnum af lambakjöti 329 tonnum af skyri frá Íslandi til Bretlands, en á móti fá Bretar að flytja inn tollfrjálst  19 tonn af hvers konar osti, 11 tonn af ostum með verndað afurðaheiti og 18,3 tonn af unnum kjötvörum.

„Bretar vildu gera betur og buðu meðal annars mjög myndarlegan tollkvóta fyrir undanrennuduft inn á íslenskan markað,“ segir Ólafur og bætir við að slíkt hefði komið Mjólkursamsölunni að góðum notum en fyrirtækið hefur nýverið komið sér upp skyrverksmiðju í Wales.  

„En vegna þess að Bretar vildu á móti fá tollkvóta inn til Íslands fyrir meira af ostum og meira af kjöti þá sögðu Bændasamtökin og aðrir hagsmunaaðilar í landbúnaði einfaldlega stopp.“