Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Grænum fingrum fjölgað á Akureyri eftir faraldurinn

08.06.2021 - 20:01
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Algjör sprenging hefur orðið í ásókn Akureyringa í matjurtagarða bæjarins. Ung hjón sem nýlega komu sér upp garði segja vinnuna jafnast á við góðan jógatíma.

„Þetta hefur gengið mjög vel“

Undanfarin tólf ár hafa Akureyringar geta leigt sér lítinn garðskika skammt norðan við flugvöllinn til að rækta sitt eigið grænmeti. Það hafa hjónin Dagfríður og Óli gert í rúmt ár. „Þetta hefur gengið mjög vel myndi ég segja, já það kom alla vegana alveg uppskera í fyrra. Við héldum að við hefðum drepið allt þarna fyrstu vikuna en það jafnaði sig, þannig að þetta hefur alveg gengið vel sko,“ segir Dagfríður. 

Algjör sprenging eftir að faraldurinn hófst

Þjónustan hefur verið opin öllum síðasta áratuginn. Jóhann Thorarensen, garðyrkjumaður og forstöðumaður svæðisins segir að eftir að heimsfaraldurinn skall á varð algjör sprenging í aðsókn. „Í fyrra jókst þetta svona rosalega og núna í ár bara jókst það enn þá meira þannig að við höfum þurft að rista ofan af og búa til nýja garða og það myndaðist biðlisti sem við erum að vísu búin að vinna upp þannig að það er mikil kátína yfir þessu öllu saman,“ segir Jóhann. 

En þetta var eins og þú segir mikil aukning eftir bankahrunið og svona núna aftur eftir veiruna, fylgir þetta einhverjum hörmungum þessi ræktun ykkar?

„Það má segja, eins dauði er annars brauð kannski, að við notum það sem uppsveiflu.“

Ná að núllstilla sig 

Þau Dagfríður og Óli segja garðyrkjuna vera fyrir alla.  „Það eru allir sem ættu að geta þetta. Þetta eru engin geimvísindi sko og ég bara mæli með þessu fyrir alla, þetta er bara æðislegt sko. Þegar maður kemur hingað, þá nær maður einhvern veginn að núllstilla sig. Maður er bara vesenast í þessu eitthvað, er að vökva þetta og róast alveg svakalega. Þetta er svona jarðtenging.

Bara eins og jógatími?

„Já, nákvæmlega, með í góða veðrinu?“