Fimm ára fangelsi fyrir grófa nauðgun

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann til fimm ára fangelsisvistar auk greiðslu fjögurra milljóna króna í skaðabætur til brotaþola fyrir sérlega grófa nauðgun á heimili mannsins á Akureyri í september 2020.

Árás sem stóð lengi yfir

Dómurinn, sem var fyrst birtur í gær, féll 28. maí. Þar segir meðal annars: „árás sú sem ákærði er nú sakfelldur fyrir stóð lengi yfir. Brotaþoli hlaut umtalsverða áverka. Þá er hún illa haldin af áfallastreitu og ótta. Brot hans samkvæmt 1. mgr. 194. gr.almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var sérlega gróft og  niðurlægjandi  og ber að virða það til refsiþyngingar,“ segir þar enn fremur.

Miklir áverkar og versnandi andlegt ástand

Þá segir einnig að með vísan til framburðar brotaþola, mikilla líkamlegra áverka hennar, andlegs ástands hennar við komu á neyðarmóttöku og staðfestingar meðferðaraðila á mjög versnandi andlegu ástandi hennar í kjölfar þessara atvika, sé það álit dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi þvingað brotaþola til að þola það ofbeldi sem lýst er í ákæru. Meðal áverka sem brotaþoli hlaut við atlöguna voru mar á aftanverðum hægri framhandlegg, aftanverðu hægra læri, vinstra viðbeini og framanverðum vinstri sköflungi, marbletti hægra megin á hálsi, eymsli í hársverði, herðum, brjóstkassa og hryggjarsúlu niður á rófubein og mar og húðrifur í og við endaþarm.

Fjórar milljónir í skaðabætur

Þótti refsing ákærða hæfileg fangelsi í fimm ár, að frádregnu gæsluvarðhaldi sem ákærði sætti frá 19.-22. september 2020. Brotaþoli krafðist fimm milljóna króna skaðabóta úr hendi ákærða, auk vaxta, en dómsorð kveður á um að ákærði skuli greiða brotaþola fjórar milljónir króna með vöxtum. Þá er ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, þar á meðal málsvarnarlaun og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola.

 

Jón Agnar Ólason