Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Endurheimtu rúmlega helming lausnargjalds

epa09253939 Deputy US Attorney General Lisa Monaco is followed by FBI Deputy Director Paul Abbate as she arrives to speak about the Colonial Pipeline Co. ransomware attacks during a news conference at the Justice Department in Washington, USA, 07 June 2021.  EPA-EFE/JONATHAN ERNST / POOL
Lisa Monaco, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Bandaríska dómsmálaráðuneytið kveðst hafa endurheimt rúmlega helming lausnargjaldsins sem eldsneytisflutningafyrirtækið Colonial Pipeline greiddi tölvuglæpahópnum Darkside í síðasta mánuði. Gagnagíslaárás Darkside olli umfangsmikilli lokun á eldsneytisdreifingakerfi fyrirtækisins.

AFP fréttastofan hefur eftir Lisu Monaco, aðstoðardómsmálaráðherra, að yfirvöldum hafi tekist að snúa á Darkside. Yfirvöld náðu að rekja ferli þeirra 75 bitcoin sem Colonial greiddi í lausnargjald. Þegar lausnargjaldið var greitt jafngilti það 4,4 milljónum bandaríkjadala. Eftir rakningu náði dómsmálaráðuneytið að endurheimta 63,7 bitcoin, sem vegna gengisbreytinga jafngilti aðeins um 2,3 milljónum á mánudag.

Joseph Blount, stjórnandi Colonial, kvaðst þakklátur bandarísku alríkislögreglunni FBI fyrir vel unnin störf. Colonial hafði strax samband við FBI eftir að starfsmenn urðu varir við árásina.

Árásin var gerð 7. maí og hafði veruleg áhrif á dreifingakerfi Colonial. Leiðslur fyrirtækisins liggja frá ströndum Texas og til austurstrandar Bandaríkjanna. Að sögn fyrirtækisins sinnir það tæplega helmingi eldsneytisþarfar ríkja Bandaríkjanna við austurströndina.