„Ég hélt einhvern veginn alltaf í drauminn“

Mynd: EPA-EFE / PAP

„Ég hélt einhvern veginn alltaf í drauminn“

08.06.2021 - 18:46
Guðmundur Þórarinsson var hálf klökkur í viðtali eftir 2-2 jafntefli íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á móti Póllandi í Poznan í dag. Guðmundur sem er 29 ára hefur beðið lengi eftir tækifæri með landsliðinu og átti góðan leik í dag.

„Upplifunin var bara fín. Mér fannst við spila bara vel meira og minna í 90 mínutur. Við vorum auðvitað að mæta öflugu liði sem er í undirbúningi fyrir EM. Við erum búnir að vera saman núna í tvær vikur. Mér fannst við svona eiginlega ná að setja saman allt sem við töluðum um í dag. Við fylgdum okkar hlutverki frábærlega. Bara gríðarlega svekkjandi að ná ekki að vinna. Þannig sé ég leikinn akkúrat núna,“ sagði Guðmundur í viðtali sem Ómar Smárason starfsmaður KSÍ tók fyrir RÚV eftir leikinn í dag.

Spurður út í hvað gekk best í leiknum sagði Guðmundur: „Varnarfærslur skiluðu sér mjög vel. Mér fannst við vera fínir með boltann þegar við unnum hann. Mér fannst við bæta það töluvert mikið frá leiknum á móti Færeyjum.“

Ímyndaði sér alltaf að standa í svona viðtali

Guðmundur fékk í dag langþráð tækifæri með íslenska landsliðinu. Hann er orðinn 29 ára en spilaði í dag aðeins sinn sjöunda landsleik. Þetta var í raun fyrsti landsleikurinn sem hann fær almennilegt tækifæri til að sanna sig. Guðmundur átti lykilsendingar í báðum mörkum Íslands í leiknum auk þess að skila varnarvinnunni vel.

„Já, heldur betur. Þetta er búið að vera rosalega erfitt á köflum. Ég einhvern veginn ímyndaði mér alltaf að ég myndi fá að standa í svona viðtali eftir landsleik. Ég hélt einhvern veginn alltaf í drauminn. Úff, vá, ég er að fá létta gæsahúð hérna. Það var frábært að fá þetta tækifæri,“ sagði Guðmundur og greinilegt að miklar tilfinningar voru í spilunum.

Búin að vera löng leið

„Mér leið rosalega vel á vellinum. Mér fannst ég spila mjög vel. Þetta er búin að vera svo löng leið að þessu markmiði einhvern veginn hjá mér frá því ég man eftir mér. Fyrst og fremst var það frábær tilfinning að fá að stíga út í landsliðstreyjunni og spila góðan leik með liðinu. Það er bara erfitt að setja orð á hitt einhvern veginn. Það var bara frábært að fá þetta tækifæri og vonandi nýtti ég það vel,“ sagði Guðmundur Þórarinsson.

Viðtalið við Guðmund má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ánægður að sjá sína leikmenn svekkta með jafntefli

Fótbolti

„Böggandi að þurfa að bíða eftir þessu“

Fótbolti

„Þetta var góður auglýsingagluggi fyrir mig“

Fótbolti

Jafnt í Póllandi - Brynjar stimplaði sig inn með stæl