Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Covid-áhrif gegn skattaskjólum

08.06.2021 - 16:54
Mynd: EPA-EFE / EPA
Skattareglur, sem gera stórfyrirtækjum kleyft að færa hagnað í skattaskjól, hafa lengi verið þyrnir í augum baráttufólks fyrir réttlátari sköttum. Covid hefur ýtt undir skilning á samhjálp og á laugardaginn var gerðu fjármálaráðherrar G7-ríkjanna samkomulag sem miðar að því að að afnema skattaskjól. Róttæk fyrirætlun þó það eigi enn eftir að koma í ljós hvað mun nákvæmlega felast í þessum nýju reglum.

Fjölþjóðafyrirtæki hafa lengi komist löglega í skattaskjól

Alþjóðleg fyrirtæki hafa ekki þurft að gera neitt ólöglegt til að koma því svo fyrir að mestur hluti skattskyldra tekna lendi einmitt í skattaskjólum, þar sem eru lágir eða engir skattar. Baráttufólk fyrir sanngjarnari skattreglum hefur lengi talað fyrir ærlega daufum eyrum stjórnmálamanna, sem eru ábyrgir fyrir að reglurnar eru eins og þær eru.

Yellen: heimurinn eftir Covid á að vera réttlátari en áður, líka í sköttun

En ekki lengur. Veirufaraldurinn hefur breytt afstöðu ráðamanna. Eins og Janet Yellen fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði í ávarpi þá tóku fjármálaráðherrar G7 landanna afdrifaríka ákvörðun nú um helgina: heimurinn eftir heimsfaraldurinn ætti að vera réttlátari en áður, ekki síst varðandi alþjóðlega sköttun.

Samkomulag G7 landanna: fyrirtæki sköttuð þar sem þau starfa

Samkomulagið sem fjármálaráðherrar G7 landanna – Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Kanada og Japans – hafa gert með sér miðast við hnattrænt og stafrænt hagkerfi heimsins og tekur einnig tillit til umhverfissjónarmiða.

Samkomulagið er í tveimur hlutum. Kveðið á um að stærstu og arðbærustu fjölþjóðafyrirtækin þurfi að  greiða skatt í löndunum sem þau starfa í, ekki aðeins þar sem höfuðstöðvar þeirra eru. Eftir ákveðnum reglum verður svo að lágmarki 15 prósenta fyrirtækjaskattur lagður á fyrirtækin í sérhverju landi, sem þau starfa í.

Ólíkir hagsmunir bræddir saman

Joe Biden Bandaríkjaforseti hafði talað um 21 prósents skatt en róttæknin dalaði. Mörg stórfyrirtæki hafa höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, svo Bandaríkjastjórn hefur verið upptekin af að hagnaður yrði greiddur þar sem höfuðstöðvarnar eru. Hagsmunir annarra landa eins og Breta eru að fyrirtæki yrðu sköttuð þar sem viðskiptavinirnir eru, það er þar sem söluhagnaðurinn verður til. Samkomulagið hefur brætt saman ólík sjónarmið.

Langt ferli að koma samkomulaginu í framkvæmd

Samkomulag fjármálaráðherranna verður rætt á leiðtogafundi G7 landanna í Bretlandi um helgina og þá samþykkt. Það verður svo á dagskrá fundar fjármálaráðherra og seðlabankastjóra G20 ríkjanna í sumar og síðan tekið upp í OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, þá fellt í rammasamning 139 ríkja. Það þarf lagabreytingar í hinum einstöku löndum, einnig í Bandaríkjunum, án efa átakamál í uppsiglingu þar. Lönd eins og Rússland og Kína þurfa einnig að samþykkja nýju reglurnar.

OECD á krossgötum: nýr framkvæmdastjóri

OECD hefur lengi unnið að breytingum í þessa átt. Þangað til Covid hleypti heiminum í uppnám virtust slíkar skattbreytingar harla fjarlægur draumur. En já, Covid breytti afstöðunni til samhjálpar og réttlátari skattheimtu.

OECD er einnig á krossgötum. Eftir fimmtán ár sem framkvæmdastjóri stofnunarinnar hætti Angel Gurria nú um mánaðamótin. Eftirmaðurinn er Belginn Mathias Cormann, sem fluttist til Ástralíu fyrir um aldarfjórðungi og hefur verið fjármálaráðherra Ástralíu í mörg ár. Það kemur því í hlut Kormanns að koma samkomulaginu í framkvæmd á vegum OECD.

Cormann: stórviðburður en vinnan er ekki búin

Í viðtali við breska ríkisútvarpið sagði Cormann að vissulega væri meira að gera en samkomulag G7 landanna væri stórviðburður og stórt skref fram á við.

Það eru ýmsar forsendur fyrir að sköttunin verði brotin niður á einstök lönd, til dæmis að framlegð fyrirtækisins sé yfir tíu prósent. Ýmsir hafa bent á að þar með muni reglurnar ekki  ná til Amazon, sem í hugum margra er einmitt erkidæmi um fyrirtæki sem ætti að skatta þar sem það starfar.

Cormann segir að vissulega leggi OECD til að reglurnar nái til fyrirtækja eins og Amazon, það sé enn verk að vinna. Reglurnar eigi að ná til stafrænna og annarra fjölþjóðafyrirtækja í öllum löndum sem þau starfa í.

Gagnrýnisraddir: meira þarf til

Þó samkomulaginu sé víða fagnað er það líka gagnrýnt fyrir að ganga ekki nógu langt. Gordon Brown fyrrum forsætisráðherra Breta segir að fátæk lönd hagnist lítt á samkomulaginu. Fyrirtæki eins og Amazon muni sleppa, sem fyrr smugur til að komast hjá skatti. Brown segir þetta snúast um sanngirni, réttlæti og  velsæmi og hægt að gera betur en gert var.

Í fyrsta skipti yfirlýstur vilji til að loka smugum skattaskjóla

Reynslan sýnir að í flóknum reglum vilja leynast smugur en nú er í fyrsta skipti yfirlýstur vilji leiðandi landa til að loka smugum skattaskjólanna.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir