Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ýmsum menningarviðburðum frestað í Færeyjum um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Hætt var við að halda nokkrar skemmtanir og menningarviðburði í Færeyjum um helgina eða þeim frestað vegna aukinnar útbreiðslu breska afbrigðis COVID-19 í eyjunum.

Í síðustu viku var tilkynnt að Country & Blues-tónlistarhátíð í Sörvogi hefði verið blásin af og hætt var við að halda Menningarnótt í Þórshöfn á föstudaginn var.

Tilkynning þess efnis barst frá Visit Tórshavn daginn áður en til stóð að hátíðin hæfist en vonir standa þó til að hægt verði að halda hana að loknum sumarleyfum.

Í tilkynningunni er ákvörðunin hörmuð en sagt að líkur séu taldar aukast á hátíðahöldum eftir því sem líður á sumarið vegna fjölgunar bólusettra í eyjunum.

Ekkert varð heldur af árlegri hátíð í Klaksvík um helgina, svonefndri Norðoyastevnu, og Þórshafnar-maraþoninu sem átti að þreyta í gær var frestað. Enn hefur ekki verið tilkynnt um nýja dagsetningu.

Allir stærri íþróttaviðburðir helgarinnar, þar á meðal landsleikur Íslendinga og Færeyinga, voru haldnir án áhorfenda. Næturklúbbum og börum var lokað á miðnætti en venjulega er opið til fjögur.

Landsstjórnin hvetur almenning til að gæta varúðar næstu viku og fresta eða hætta við fjölmennar samkomur, gæta að fjarlægðartakmörkunum og persónulegum sóttvörnum.

Yfir 40% Færeyinga hafa fengið fyrstu sprautu af bóluefni Pfizer og næstum 25% teljast fullbólusett. Frá og með þessari viku stendur öllum, 16 ára og eldri til boða að fá bólusetningu.