Var 16 ára módel í ullarfatnaði

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson

Var 16 ára módel í ullarfatnaði

07.06.2021 - 15:38

Höfundar

Á níunda áratugi síðustu aldar var nýjasta nýtt í íslenskri ullartísku borið á borð fyrir ferðamenn á tískusýningum Módelsamtakanna. Friðrik Jónsson, nýr formaður Bandalags háskólamanna, sýndi ull fyrir samtökin ungur að aldri.

Friðrik Jónsson segist vera „mjög vanur ullarburðarmaður,“ í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. Friðrik var nýverið kjörinn formaður BHM en síðustu 25 ár hefur hann starfað hjá utanríkisþjónustu Íslands en löngu áður en sá ferill hófst vann hann fyrir sér sem fyrirsæta hjá Módelsamtökunum. 

Einhver merkasti áratugur fyrri alda  

Sextán ára að aldri gekk Friðrik í Módelsamtökin. Þar fékk hann að kynnast ullinni náið þar sem hann skartaði peysum og öðrum ullarfatnaði á hótelum og skemmtistöðum. „Þá sýndi maður ull á fimmtudögum og sunnudögum á Hótel Esju,“ segir Friðrik. Þá hafi leiðin legið að skemmtistöðunum Hollywood eða Broadway þar sem tískufatnaður úr verslunum á borð við Karnabæ og Blondie var sýndur.  

„Þetta var á einhverjum merkasta áratug fyrri alda, 80’s, níundi áratugurinn þegar allt var að gerast.“ Þessi tími hafi verið mjög skemmtilegur og hann eigi enn þá myndbandsupptökur af sér þar sem hann sýndi föt á Broadway. „Þetta var mikið fjör og ég kynntist mikið af góðu fólki.“ 

Endaði á að draga vini með sér 

Friðrik segir hópinn hafa verið blandaðan sem var í þessum störfum með honum en það hafi verið fáir strákar þegar hann byrjaði. „Ég fór inn í Módelsamtökin vegna þess að systir mín var í þessu og þá vantaði stráka,“ segir hann. Þá endaði Friðrik á að draga nokkra vini sína með sér og segir að endingu hafi eiginlega bara þeir strákarnir nennt að vera í þessu.  

Að vera í Módelsamtökunum gaf þeim aðgang að skemmtistöðum sem þeir höfðu ekki endilega aldur til að vera inn á. Hann gat nefnilega auðveldlega sleppt því að fara heim eftir sýningar. „Eftirlitið hvort 16 ára módelið færi heim úr vinnunni var ekkert sérlega skilvirkt.“  

Rætt var við Friðrik Jónsson í Segðu mér á Rás 1.  

Tengdar fréttir

Innlent

Friðrik Jónsson kjörinn formaður BHM

Menningarefni

„Það breytist allt með aldrinum“