Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rotta sest í helgan stein

07.06.2021 - 15:57
Mynd með færslu
 Mynd: APOPO - EPA-EFE
Starfsævi forðarottunnar Magawa líður undir lok í dag eftir fimm ára starf á jarðsprengjusvæðum í Kambódíu. Það eru belgísku góðgerðarsamtökin, APOPO, sem sjá um að þjálfa nagdýr til að þefa uppi jarðsprengjur svo hægt sé að fjarlægja þær. Magawa hefur verið farsælasti starfskrafturinn frá upphafi en hún hefur þefað uppi 71 jarðsprengju í Kambódíu, þar af 38 sem enn voru virkar.

Breski fréttamiðillinn Guardian greinir frá þessu í dag. Magawa varð einnig fyrsta rottan til þess að hljóta virt heiðursverðlaun bresku dýralæknagóðgerðarstofnunarinnar PDSA árið 2020. Verðlaunin eru veitt dýrum sem hafa sýnt hugrekki og hollustu við störf sín.

Magawa er sögð vera býsna hraust en hún sé þó orðin seinni í svifum en áður og því sé kominn tími til að setjast í helgan stein eftir glæstan starfsferil.

Árið 2018 létu um sjö þúsund manns lífið í Kambódíu sökum jarðsprengja og stefnt er að því að hreinsa allar jarðsprengjur í landinu fyrir árið 2025.