Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gott líf í vaxtarjöðrum hraunsins í Nátthaga

Mynd: Bjarni Pétur Jónsson / RUV
Það er gott líf í vaxtarjöðrunum í hrauninu í Nátthaga, segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði. Hraun rennur enn ofan í dalinn, þó að rennsli hafi stöðvast í sumum hraunánum og storknað hafi yfir aðrar.

Þorvaldur segir að framleiðni í gosinu sé svipuð, hraunið renni úr rás sem ekki sést, út í hraunár og á um 10 mínútna fresti komi gusur upp úr gígnum.

Ragnhildur Thorlacius fréttamaður ræddi við hann fyrir Spegilinn. 

Virknin í gígnum hefur breyst undanfarna viku

Að sögn Þorvalds hefur virknin í gígnum breyst dálítið í síðustu viku, hann segir hraunkvikuna standa hærra í gígnum.

„Þar af leiðandi fáum við ekki eins afgerandi kvikustróka, meira slettur, eftir því sem hefur liðið á vikuna virðist hafa hækkað í gígnum og sletturnar hafa verið meira til hliðanna en upp á við. Og þær virkilega byggja upp og hlaða upp gíginn.“

Þorvaldi finnst hraunið fagurt. „Virkilega fallegar brynjur sem koma utan í gíginn. Vel silfurlitar á meðan þær eru heitar. Sumar þeirra flæða áfram út á hraunið.“

Hann segir athyglisvert að þegar hryðjurnar úr gígnum nái hámarki berist svakaleg boðaföll niður hraunrásina sem liggur frá honum. Hann segir myndast allt að 20 metra háa standandi bylgju þegar mest lætur. „Þetta er svaka flóð og geysist þarna niður.“

Hann segir bylgjurnar ekki hafa áhrif á flæði í hraunánum. Aðalflæðið sé neðanjarðar og virðist viðhalda þeim. Það sé stöðugt streymi af kviku í árnar.

„Síðan erum við með þessi miðlunarlón- eða polla sem hafa myndast þarna. Einn beint fyrir norðan Gónhólinn og annar aðeins austar fyrir ofan syðri Meradali. Svo er sífellt dælt inn í Geldingadalinn.“ 

Besta dæmið sé að í rúma viku hafi glóandi hraunkvika komið hér og þar upp á yfirborðið í hrauninu í Geldingadölum. Þorvaldur segir kviku vera undir þessu öllu.

„Ég hef séð þessa bletti, ekki á einum eða tveimur stöðum, þeir eru út um allan dalinn.“  Það sé skýr vitnisburður um það er þegar hrauntota fór yfir söðulinn sunnan við Gónhól og gerði hann raunverulega að óbrennishólma. 

Mikið sjónarspil umhverfis Nátthaga

Margir hafa örugglega velt fyrir sér fossunum sem falla niður í Nátthaga. Hefur hraunrennslið verið að aukast, framleiðnin að aukast í gosinu, eða er þetta úr hrauntjörnunum, miðlunarlónunum ofan við? 

„Þetta gerðist hratt, jafnvel hraðar en menn áttu von á. Upphafið var þegar hraunið fór yfir söðulinn sunnan Gónhóls og yfir í syðri Meradali. Síðan fór hraunflóðið niður með austurhlíðum hólsins og virðist hafa dælt kviku niður að vestari stíflunni en einnig líka austur fyrir.“ 

Þorvaldur segir stóra pollinn sem er fyrir ofan syðri Meradali sömuleiðis hafa sent hraunkviku af stað, þannig að allt hafi lagst á um eitt við að dæla hrauni niður í Nátthaga. 

„Núna er sjónarspilið ekki eins rauðglóandi, ef við getum sagt svo, núna hafa margar af þessu aðfærsluæðum sem voru þarna stoppað eða að storknað hefur yfir þær þannig að við sjáum þær ekki lengur. En þær halda áfram að dæla hrauni þarna niður.“ 

Að sögn Þorvalds eru engin merki um að framleiðni í gosinu sjálfu hafi breyst svo einhverju nemi. Það sé alltaf breytileiki í því frá einum tíma til annars, fari aðeins upp og og aðeins niður. 

„Það er gott líf í vaxtarjöðrunum í Nátthaga, það er enn á hreyfingu, ekki jafn hratt og um helgina. Það er hluti af því þegar storknar yfir og hraunkvikan nær að mynda skorpu sem einangrar flutningskerfið og sepana sem myndast fyrir framan.“

Skorpan hafi styrk sem hægi á flæðinu sem verði til þess að hraunið þykknar. Þorvaldur álítur að hraunrennslið geti aukist á ákveðnum stöðum og mjög tilkomumikið sé þegar það gerist, þar sem hraun steypist fram af brún og niður brattar hlíðar og allt verði rauðglóandi. Það sé samt aðeins staðbundin aukning.