Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Frumvarp um févíti ekki lagt fram

Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Frumvarp um brotastarfsemi á vinnumarkaði sem átti að leggja fram í tengslum við lífskjarasamninginn verður ekki lagt fram fyrir þinglok. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að leggja fram frumvarp hefur ekki náðst sátt um það innan verkalýðshreyfingarinnar. Líklegt er að tekist verði á um málið í næstu kjaraviðræðum.

Þegar lífskjarasamningurinn var samþykktur á almenna vinnumarkaðinum vorið 2019 fylgdi honum langur loforðalisti frá ríkisstjórninni um aðgerðir sem áttu að styðja við samninginn. Þegar kom að endurskoðun eða uppsagnarákvæði samningsins í fyrra haust kom í ljós að ríkisstjórnin hafði í meginatriðum staðið við loforð sín. Hins vegar stóð eftir að leggja fram frumvarp um starfskjaralög sem áttu meðal annars að taka á brotastarfsemi á vinnumarkaði. 

Hótuðu uppsögn samninga

Að þessu sinni var það ekki verkalýðshreyfingin sem taldi að forsendur samningsins væru brostnar heldur atvinnurekendur. Þeir bentu á að hagvaxtarspáin væri allt önnur en við undirritun samningsins og að atvinnulífið réði ekki við þær launahækkanir sem væru fram undan. Engar forsendur væru fyrir hækkun launakostnaðar. Boðað var til allsherjaratkvæðagreiðslu innan samtakanna um hvort segja ætti upp samningunum frá 1. október í fyrra. Ekkert varð þó af henni því framkvæmdastjórn SA samþykkti að samningar ættu að gilda áfram

Nýr loforðalisti

Ríkisstjórn lagði fram nýjan loforðalista í átta liðum til að komast hjá uppsögn samninga. Þar var meðal annars ákveðið að framlengja átakið allir í vinnu og halda áfram að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu og tryggingargjaldið var lækkað tímabundið. Því var líka lofað að ríkisstjórnin legði fram tiltekin frumvörp á haustþinginu sem tengdust loforðum sem gefin voru við undirritun lífskjarasamningsins. Meðal þeirra var frumvarp til starfskjaralaga og frumvarp um kennitöluflakk. Orðrétt sagði:

Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við Lífskjarasamninginn verða frumvarp til starfskjaralaga, frumvarp til húsaleigulaga, frumvarp til laga um breytingar á gjaldþrotaskiptum (kennitöluflakk) og frumvarp um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu lögð fram á haustþingi. 

Alþýðusambandið taldi nauðsynlegt að hækka atvinnuleysisbætur. Og ASÍ lagði fram skýlausa kröfu um að frumvarp til starfskjaralaga yrði lagt fram og þar yrði kveðið á um févíti vegna launaþjófnaðar eins og það var orðað. Þar sagði meðal annars.

„Það er með öllu ólíðandi að atvinnurekendur komist upp með að stela launum fólks og með ólíkindum að stjórnvöld hiki við að leiða í lög tæki sem raunverulega bíta gegn svo siðlausu athæfi.“ 

Félagsmálaráðherra kynnti drög að starfskjaralögum í ríkisstjórn í desember í fyrra og drögin voru send aðilum vinnumarkaðarins til kynningar í febrúar. Reyndar höfðu einhver drög gengið á milli aðila fljótlega eftir að lífskjarasamningurinn var undirritaður. Það er skemmst frá því að segja að þau féllu í grýttan jarðveg sér í lagi af hálfu Eflingar. Félagið fann frumvarpsdrögunum allt til foráttu. Ákvæði um málsmeðferð í málum þolenda brotastarfsemi á vinnumarkaði og um viðurlög gegn henni væru bæði hriplek og bitlaus. 

Í stuttu máli var ráðherra gerður afturreka með frumvarpsdrögin. Í framhaldinu óskaði hann eftir því  forseti ASÍ og framkvæmdastjóri SA færu yfir drögin og gerðu tillögur um breytingar. Sátt náðist milli þeirra um breytingar. Ný drög voru lögð fram í ríkisstjórn og kynnt í þingflokkum ríkisstjórnarinnar. Samþykkt bæði í ríkisstjórn og í þingflokkunum. Sagan endurtók sig því frumvarpsdrögin sem ráðherra lagði fram í desember í fyrra og dró til baka fóru líka fyrir ríkisstjórn og stjórnarflokkana.

Enn ágreiningur

Eftir að sátt náðist milli forseta og framkvæmdastjóra SA um útfærslu á frumvarpinu hefur komið í ljós að sú sátt nær ekki inn í raðir verkalýðshreyfingarinnar. Eftir því sem næst verður komist leggjast bæði Efling og VR  harðlega gegn því. Beiting á svokölluðu févíti þykir ekki ganga nógu langt og málsmeðferðin er gagnrýnd. Hugmyndir um févíti eða sekt sem ganga lengst gera ráð fyrr að verkalýðsfélögin geti lagt á févíti þannig að krafan á hendur þess sem hefur gerst brotlegur tvöfaldist. Þegar ágreiningurinn var ljós óskaði ASÍ beinlínis eftir því að frumvarpið yrði ekki lagt fram.

Ekkert frumvarp

Þannig að nú þykir ljóst núverandi ríkisstjórn leggja fram frumvarp um brotastarfsemi á vinnumarkaði. Atvinnurekendamegin er ekki lögð mikil áhersla á að það verði að lögum og verkalýðshreyfingarmegin er ágreiningur um það. Hugsanlega býður það nýrrar ríkisstjórnar að kljást um þetta. Hins vegar er líklegra að ekkert verði úr lagasetningu á gildistímabili lífskjarasamningsins. Hann gildir fram á haust á næsta ári og líklegt þykir að tekist verði á um brotastarfsemina á vinnumarkaði í kjaraviðræðunum sem þá hefjast.