Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flestir vegir á hálendinu enn ófærir

07.06.2021 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi Eystr - RÚV
Opnun fjallvega á vorin ræðst í grunninn af veðurfari og snjóalögum. Þegar frost er farið úr þeim og ekki hætta á skemmdum þykir óhætt að opna fyrir umferð. Þrátt fyrir milda tíð síðustu daga er ekki útlit fyrir að hægt verði að opna vegi á hálendinu fyrr en vanalega. Þar spilar inn í óvenjukaldur maímánuður.

Fulltrúar Vegagerðarinnar, lögreglu, Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs komu saman í síðustu viku á árlegum vorfundi. Þungamiðjan í samstarfi þessara stofnana er náttúruvernd, aðgengi, verndun innviða, öryggi vegfarenda og ábyrg ferðahegðun á hálendi Íslands. Á fundinum, sem er haldinn árlega, var meðal annars farið yfir stöðuna í tímabundnum vorlokunum á hálendisvegum. Flestir eru þeir enn lokaðir og stefnir allt í að opnanir verði á svipuðum tíma og í fyrra sem þá var óvenjuseint.

Ferðamenn komast brátt til Landmannalauga

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar á Selfossi er stefnt að því að opna veginn í Landmannalaugar á föstudaginn og eins veginn upp í Veiðivötn. Þar sem maí var óvenjukaldur hefur snjór verið lengi að bráðna fyrir sunnan og er þessi opnun nú í Landmannalaugar á svipuðum tíma og í fyrra. Innlendir jafnt sem erlendir ferðamenn hafa sýnt mikinn áhuga á að fara til Landmannalauga og Vegagerðin fengið fjölmargar fyrirspurnir um opnun þangað.

Enn mikill snjór norðan Vatnajökuls

Fyrir norðan eru mikil snjóalög og sérstaklega mikið hjarn sem bráðnar seint. Þórólfur Jón Ingólfsson hjá Vegagerðinni á Húsavík segir ómögulegt að segja hvenær helstu vegir norðan Vatnajökuls verði opnaðir. Í síðustu viku fóru landverðir í Öskju og könnuðu aðstæður. Á veginum þangað er enn mikill snjór og illfært. Síðasta sumar var Öskjuvegur opnaður 25. júní og ekki ólíklegt að það verði svipað í ár. Það sama á við um Sprengisand. Í fyrra var Sprengisandsvegur ekki opnaður fyrr en 8. júlí og er ekki útlit fyrir að það verði fyrr í ár. Þórólfur segir að ekki sé mikið um fyrirspurnir frá erlendum ferðamönnum um opnanir á þessum vegum en fastlega megi gera ráð fyrir að það breytist þegar líður á sumarið í takt við auknar ferðir til landsins.