Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Erlendir sjóðir skuldbinda sig til kaupa í Íslandsbanka

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Samsett mynd
Hlutafjárútboð Íslandsbanka hófst klukkan níu í morgun, en það nær að hámarki til 35% af hlutafé bankans. Í tilkynningu á vef bankans segir að áætlað markaðsvirði hans í kjölfar útboðsins sé 150 milljarðar króna.

Stefnt er á að selja rúmlega 636 milljónir hluta, en leiðbeinandi verð er á bilinu 71-79 krónur á hlut. Útboðið fer annars vegar fram með almennu útboði á hlutabréfum til fagfjárfesta og almennra fjárfesta á Íslandi, og hins vegar með lokuðu útboði til tiltekinna fagfjárfesta í ýmsum öðrum lögsögum.

Erlendir sjóðir hafa þegar skuldbundið sig til að kaupa í bankanum, samkvæmt tilkynningu bankans. Þar segir að sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors og RWC Asset Management LLP hafa skuldbundið sig til að kaupa annars vegar nærri 77 milljónir hluta og hins vegar nærri 31 milljón hluta. 

Þá hafa Gildi-lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verzlunarmanna skuldbundið sig til að kaupa hvor um sig rúmlega 46 milljón hluti. Þessir fjórir sjóðir eru sagðir hornsteinafjárfestar í útboðinu.

Útboðið stendur til þriðjudagsins 15. júní og í kjölfar þess verða öll hlutabréf Íslandsbanka skráð í Kauphöllina.