Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bogi væntir 30 þúsund farþega til Íslands í júní

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Tvöfalt fleiri ferðuðust með Icelandair milli landa í maímánuði en í apríl, einnig heldur innanlandsfarþegum áfram að fjölga og fraktflutningar jukust um fjórðung í maí. Forstjóri félagsins segir ferðavilja aukast og hann býst við að farþegum fjölgi.

Icelandair Group birti mánaðarlegar flutningatölur í Kauphöll í dag þar sem fram kemur að farþegar í millilanda- og innanlandsflugi Icelandair voru alls um 40 þúsund í maí. Af þeim ferðuðust um 18 þúsund innanlands.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að sætanýting í millilandaflugi hafi verið 35,2% í maímánuði en 29,4% á síðasta ári. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, kveðst búast við að 30 þúsund komi með félaginu til landsins í júní. „Við finnum fyrir miklum áhuga á Íslandi sem áfangastað,“ segir Bogi sem álítur jafnframt að ferðavilji í heiminum hafi aukist með auknum bólusetningum.

Um 5.700 flugu með félaginu frá Íslandi í maí samanborið við 1.600 árið 2020 en ríflega 14 þúsund komu með félaginu til Íslands í maí en aðeins um 1.500 á sama tíma í fyrra. Þá hefur fjöldi farþega yfir hafið tekið lítillega við sér og var rúmlega 1.800 í maí.

Eftirspurn eftir flugi hefur aukist og félagið því bætt við flugframboð sitt jafnt og þétt. Sætaframboð hefur áttfaldast frá því á sama tíma fyrir ári og áfangastöðum fjölgað. Þau sem fljúga til og frá Grænlandi teljast nú til millilandafarþega.