Lögreglan í Malasíu hefur tekið til þess ráðs að hefja hitamælingar á fólki, úr lofti. Sóttvarnaaðgerðir hafa verið hertar til muna í landinu eftir að kórónuveirusmitum hafði fjölgað mikið en smit urðu allt að 9.000 á dag.
Hafa yfirvöld meðal annars gripið til þeirra ráða að beita drónum, útbúnum hitamælum, til þess að hitamæla gangandi vegfarendur. Samkvæmt frétt the Guardian senda drónarnir frá sér merki ef að líkamshiti einstaklings reynist hár.
Aðgerðir stjórnvalda í síðustu viku fólust meðal annars í því að einungis tveimur aðilum úr sömu fjölskyldunni var heimilað að fara út úr húsi. Skólum og verslunarmiðstöðvum hefur þá verið lokað.
Malasíska lögreglan hefur þá varað borgarana við því að drónum verði beitt til þess að fylgjast með því hvort brotið sé gegn sóttvarnarreglum.