Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Auður viðurkennir að hafa farið yfir mörk konu

07.06.2021 - 19:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tónlistarmaðurinn Auður segist hafa farið yfir mörk konu án þess að átta sig á því fyrr en á síðari stigum. Hann ætlar ekki að taka þátt í verkefnum á meðan hann leitar sér hjálpar.

Auðunn Lúthersson, sem gengur alla jafna undir listamannsnafninu Auður hefur undanfarið legið undir ásökunum á samfélagsmiðlum um kynferðisofbeldi í garð ungra kvenna, meðal annars að hafa stundað kynlíf með stúlkum undir lögaldri. Hann sendi frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlum sínum í kvöld. Þar segir hann að árið 2019 hafi hann farið yfir mörk konu.

„Árið 2019 fór ég yfir mörk konu án þess að átta mig á því en við töluðum saman síðar. Ég tók málið alvarlega, baðst afsökunar og reyndi að axla ábyrgð, bæði gagnvart konunni og með því að tala við sálfræðing sem mér var bent á af Stígamótum. Upplifun konunnar er það sem skiptir máli. Samkvæmt frásögn hennar spurði ég „má ég“ og „líður þér óþægilega?“ en var samt ágengur. Við fækkuðum ekki fötum en ég hafði átt að hætta fyrr.“ segir í yfirlýsingu hans. 

Hann segist staðráðinn í að læra af umræðunni og bæta hegðun sína. Flökkusögur um alvarleg afbrot hans sem hafa farið hátt á samfélagsmiðlinum Twitter segir hann hins vegar að eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Hann fordæmi kynbundið ofbeldi og skammist sín fyrir að hafa verið blindur á hvernig hann var „hluti af vandanum“ eins og hann orðar það. 

„Ég veit ekki alveg hvernig næstu vikur eða mánuðir verða en ég veit að ég þarf að setja áframhaldandi sjálfsvinnu í forgang og ekki sinna öðru á meðan.“ segir í yfirlýsingunni. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Auður (@auduraudur)

Un Women á Íslandi hefur ákveðið að fjarlægja allt markaðsefni þar sem tónlistarmaðurinn Auður kemur fyrir. Þetta er gert vegna ásakana í garð hans um að hann hafi beitt ungar stúlkur kynferðisofbeldi. 

Vísir.is greindi fyrst frá þessu. Undanfarið hafa komið fram ásakanir á hendur Auði á samfélagsmiðlum þess efnis að hann hafi stundað kynlíf með stúlkum undir lögaldri og svipt ungar stúlkur frelsi. Auður er 28 ára gamall. Þá hafa komið fram ásakanir um ýmis önnur brot hans þar sem Auður hefur ekki verið nafngreindur í færslunum en gefið til kynna að hann sé umræddur tónlistarmaður sem vísað er til. 

Auður tók þátt í auglýsingum og markaðsefni á vegum UN Women, meðal annars í tengslum við Fokk ofbeldi herferðina auk þess sem hann hélt styrktartónleika í nafni Ljósagöngu samtakanna. Allt markaðsefni sem hann kemur fram í hefur nú verið fjarlægt. Stella Samúelsdóttir framkvæmdastjóri UN Women á Íslandi segir að ástæðan sé sú að samtökin vilji standa með þolendum ofbeldis og vilji ekki markaðssetja efni sem gæti komið illa við þolendur ofbeldis.

DV greindi frá því í morgun að Þjóðleikhúsið hafi mál Auðar til skoðunar en hann tekur þátt í uppfærslu leikhússins á Rómeó og Júlíu og semur meðal annars hljóðheim verksins. Þá greindi Fréttablaðið frá því að fylgendur Auðar á samfélagsmiðlum hafi fækkað verulega undanfarið vegna ásakananna.  

Ekki hefur náðst í Steinunni Camillu Sigurðardóttur, umboðsmanns Auðar eða Arnór Dan Sigurðsson, sem er í forsvari fyrir Sony hér landi, en Auður er samningsbundinn Sony.