Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Lést eftir bólusetningu – fjölskyldan vill rannsókn

06.06.2021 - 19:20
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Fjölskylda konu sem lést sólarhring eftir að hafa verið bólusett með AstraZeneca vill að rannsakað verði hvort bóluefninu sé um að kenna. Ekkillinn og hin látna fengu bæði boð í seinni sprautuna núna á miðvikudaginn. Andlátið var strax tilkynnt til Lyfjastofnunar. Stofnunin, landlæknir og sóttvarnalæknir láta nú gera rannsókn á fimm andlátum. 

Fékk boð í bólusetningu

Trausti Leósson, 74 ára, fékk sms fyrir helgi um að koma í seinni AstraZeneca sprautuna núna á miðvikudaginn. Hann og konan hans fengu fyrri sprautuna sama dag, 26. mars, og því ákvað hann að athuga í síma konunnar sinnar eftir að hann var búinn að hlaða hann: 

„Þegar hann [síminn] vaknaði, viti menn, þá var hún boðuð í bólusetninguna líka á miðvikudaginn þrátt fyrir það að hún hafi látist sólarhring eftir að hún hafði fengið fyrri sprautuna,“ segir Trausti.

Flutt meðvitundarlaus á bráðamóttöku

Þyri Kap Árnadóttir var 72 ára og vel metinn dönskukennari, síðast í MR, og í fullu fjöri. Eftir að hún fékk sprautuna 26. mars fékk hún beinverki, missti matarlyst, og svaf lítið. Hún var ekkert skárri morguninn eftir og ákvað að fara í bað því henni var svo kalt. 

„Rétt fyrir klukkan eitt þá hringir sonur okkar á Skype-inu frá Danmörku og ég segi, heyrðu ég ætla að sækja mömmu þína því að hún vill sjá litla barnabarnið sitt. En þá lá hún meðvitundarlaus í baðkarinu.“

Sjúkrabíll kom eftir fjórar mínútur og læknir og á bráðamóttökunni var allt reynt:

„Þar komu sérfræðilæknar, hjartalæknar og allir mögulegir og þeir reyndu endurlífgun í tvo klukkutíma, sem ég held að hljóti að vera bara met þar. En því miður það bar ekki árangur.“

Þáðu boð því langt í sprautu með öðru bóluefni

Þau Þyri og Trausti ígrunduðu vel daginn fyrir sprautuna hvort óhætt væri að fá AstraZeneca en ákváðu að þiggja því á COVID vefnum stóð þá að ef fólk þæði ekki þá fengi það annað boð næsta vetur. 

„Kvöldinu áður en hún fór í bólusetningu þá sagði hún: Sko, ég náttúrulega geri það sem til er ætlast af mér í kerfinu en ef að einn af mörg þúsund þolir ekki þetta bóluefni þá er voðalega leiðinlegt að vera sá eini.“

Hissa á viðbrögðum Þórólfs

Danir og Norðmenn ákváðu eins og kunnugt er að hætta að nota AstraZeneca. Í sjónvarpsfrétt 12. maí sagðist Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vera algerlega ósammála dönskum læknum en sagðist ekki vita hvort rétt væri eftir þeim haft. Hann sagði að einn á móti 100 þúsund fengi aukaverkun.

„Ég var mjög hissa á því viðtali. Konan mín var Vestmanneyingur og bar mikla virðingu fyrir Þórólfi og Víði sem eru líka Vestmanneyingar.“

Sendi lýsingu til umboðsmanns

Trausti og fjölskylda reyndu að vekja athygli fjölmiðla á dauðsfallinu án árangurs og segist Trausti bara hafa heyrt fréttir um dauðsföll í Noregi. 

Þegar hann heyrði að umboðsmaður Alþingis óskaði eftir upplýsingum hjá landlækni um upplýsingagjöf og leiðbeiningar til almennings um bólusetningar og var AstraZeneca sérstaklega nefnt sendi Trausti umboðsmanni lýsingu á því sem gerst hafði.

Það var svo 20. maí sem tilkynnt var að óháð nefnd lyflækna myndi rannsaka fimm andlát og fimm tilkynningar um blóðtappa í kjölfar bólusetninga. Landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar sendu tilkynninguna í sameiningu.

Vill að niðurstöður gerðar opinberar svo aðrir hafi val

„Sú atburðarás sem fór í gang eftir að hún fékk sprautuna olli því að hún dó. Það var eins og sem sagt bóluefnið hefði sett í gang eitthvert ferli. En hvort að það er hægt að kenna því beinlínis um það vitum við ekkert um.“

Fjölskyldan vill að komi í ljós dauði Þyriar sé bóluefninu að kenna sé það gert opinbert þannig að fólk geti afþakkað bólusetningu. Þyri stóð það ekki til boða, segir Trausti. 

„Við viljum að ef að það kemur í ljós að þetta er bóluefninu að kenna að það sé þá gert opinbert hér þ.a. einhverjir aðrir geti þá afþakkað þetta bóluefni. Henni stóð það ekki til boða. En sem sagt nágrannaþjóðirnar telja ekki ástæðu til að nota efnið. Þeir segja faraldur geisar ekki hjá okkur, ástandið á sjúkrahúsunum er gott og við ætlum ekki að nota þetta efni.“

Þú ert ekki að áfellast neinn?

„Nei, ég er ekki að áfellast neinn. Ég vil bara fá niðurstöðu í þessa rannsókn og umfram allt að ég vil heyra í fjölmiðlum að það sé rannsókn í gangi, að það sé verið að rannsaka er bóluefni ástæða fyrir þessum dauðsföllum og hremmingum sem fólk hef lent í eða er það eitthvað allt annað sem kemur til.“

Þannig að þú ert ekki að áfellast stjórnvöld í þessu?

„Nei, nei, ég geri það ekki. Þau hafa staðið sig mjög vel í þessu öllu en mér finnst þau kannski hafa verið einum of gráðug að nota þetta bóluefni meðan að aðrir vilja ekki nota það,“ segir Trausti Leósson.