Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hrottafengin morð vígamanna í Búrkína Fasó

06.06.2021 - 01:13
Mynd með færslu
Róstusamt hefur verið í Búrkína Fasó um langt skeið. Hér bera hermenn fallinn félaga sinn til grafar eftir hryðjuverk í höfuðborginni Ouagadougou Mynd:
Vel á annað hundrað þorpsbúa í Solhan í Búrkína Fasó voru myrtir af vígamönnum í dag. Árásin er sú mannskæðasta síðan vígamenn úr röðum íslamista  hófu innreið sína í landið árið 2015 að sögn AFP fréttastofunnar. 

Minnst 138 eru látnir að sögn yfirvalda í Búrkína Fasó. Forsetinn Roch Marc Christian Kabore fordæmdi árásina og sagði landsmenn verða að standa saman gegn villimannslegum öfgasveitum. Vígamennirnir hófu árásina klukkan tvö í nótt. Þeir réðust fyrst á varnarsveit sjálfboðaliða, og murkuðu svo lífið úr þorpsbúum að sögn yfirvalda. Tugir eru særðir eftir árásina. 

Stjórnvöld sögðu varnar- og öryggissveitir hafa verið sendar af stað til að stöðva hryðjuverkamennina og tryggja frið á þéttbýlum svæðum. Þá voru hermenn sendir til Solhan til að fjarlægja og grafa lík. 

Þorpið hefur orðið fyrir nokkrum árásum undanfarin ár. Það er í um 15 kílómetra fjarlægð frá Sebba, stærstu borg Yagha-héraðs í Búrkína Fasó. Solhan er nærri landamærunum að Malí og Níger.

Talsmaður Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sagði í yfirlýsingu í kvöld að Guterres væri bálreiður vegna morðanna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV