Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Brynjar segir skilaboðin skýr og kveður stjórnmálin

06.06.2021 - 11:37
Brynjar Níelsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir skilaboðin úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins skýr og hefur því tekið þá ákvörðun að kveðja stjórnmálin. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu þingmannsins. Hann segir úrslitin úr prófkjörinu talsverð vonbrigði.

Brynjar sóttist eftir því að vera oddviti flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Hann var oddviti flokksins í suðurkjördæmi höfuðborgarinnar fyrir síðustu kosningar en gaf sæti sitt eftir til Sigríðar Andersen. 

Bæði Brynjari og Sigríði var hafnað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem lauk í nótt. Bæði sóttust þau eftir öðru sæti í prófkjörinu en Brynjar hafnaði í fimmta sæti og Sigríður var ekki meðal átta efstu.

Brynjar segir á Facebook-síðu sinni að úrslitin séu talsverð vonbrigði. „En skilaboðin eru skýr. Ég trúi því að Sjálfstæðisflokknum muni vegna vel í komandi kosningum og kveð því stjórnmálin sáttur.“ Brynjar gefur reyndar í skyn að hann ætli að kveðja Facebook líka, færslur hans þar hafa oftar en ekki vakið nokkra athygli.

Brynjar hefur setið á þingi síðan 2013 og verið 2. varaforseti Alþingis á þessu kjörtímabili. 

Sigríður og Brynjar bætast í ört stækkandi hóp þingmanna sem sóst hafa eftir leiðtogahlutverki á framboðslistum en verið hafnað. Þannig var oddvitum VG í öllum kjördæmum nema í Reykjavík skipt út, nýr oddviti verður hjá Sjálfstæðismönnum í Suðurkjördæmi og nýir oddvitar hjá Framsókn í Norðvestur-og Norðausturkjördæmi.

Og það er ekki bara mikil endurnýjun hjá stjórnarflokkunum því Samfylkingin stillir upp nýjum oddvitum í þremur kjördæmum.   Valgarður Lyngdal Jónsson tekur við efsta sætinu í Norðvesturkjördæmi af Guðjóni Brjánssyni sem er hættur, Kristrún Frostadóttir verður leiðtogi flokksins í Reykjavík suður og Þórunn Sveinbjarnardóttir leiðir lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Hjá Pírötum ætlar helmingur þingflokksins að láta af þingstörfum; þeir Helgi Hrafn Gunnars­son, Jón Þór Ólafsson og Smári McCarthy. Gunnar Bragi Sveinsson er eini þingmaður Miðflokksins sem hefur tilkynnt að hann ætli að hætta.  

Í Viðreisn eru nýir oddvitar í kjördæmunum úti á landi: Eiríkur Björn Björgvinsson er í efsta sæti í Norðausturkjördæmi, Guðbrandur Einarsson er oddviti í Suðurkjördæmi og Guðmundur Gunnarsson verður leiðtogi í Norðvesturkjördæmi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV