Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Breyttar skattareglur geta haft veruleg áhrif á Íslandi

06.06.2021 - 20:30
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Ákvörðun G7-ríkjanna um að leggja skatta á alþjóðleg fyrirtæki getur haft veruleg áhrif hér á landi ef vel tekst til, segir fyrrverandi ríkisskattstjóri. Hvert ríki þarf að breyta eigin löggjöf í samræmi við komandi alþjóðasamninga.

Sögulegt og tímamót hefur verið haft á orði um samþykkt G7-ríkjanna sem var tilkynnt í gær. „Já ég get tekið undir það. Þetta hefur lengi verið baráttumál margra ríkja og samtök eins og OECD sem að vinna mikið að skattamálum hafa lengi unnið að og barist fyrir sameiginlegum reglum um þetta efni,“ segir Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri.

Lágmarksskattur og aukin skattheimta

Segja má að samkomulagið skiptist í tvo þætti. Annars vegar að setja alþjóðlegan lágmarksskatt á fyrirtæki sem samkvæmt samkomulaginu verður 15%. Í öðru lagi á að koma því í kring að fyrirtækin greiði skatta í því landi sem þau afla tekna. Þetta beinist ekki síst að stórfyrirtækjum eins og Google og Facebook. „Og hún er einfaldlega hugsuð á þann veg að sé hagnaður móðurfyrirtækisins í heild yfir einhverjum tilteknum mörkum, yfir 10%, þá skiptist 20% af því sem umfram er á milli landa eftir því hvar teknanna hefur verið aflað og þau lönd geti síðan lagt á það skatt,“ segir Indriði. 

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Viðtalið í heild má sjá hér.

Indriði segir að í þessu felist einnig fælingarmáttur, það borgi sig síður fyrir fyrirtæki að standa í tilfæringum. En hvaða áhrif getur þetta haft hér á Íslandi? „Það fer náttúrulega eftir því hvernig þessum alþjóðasamtökum sem setja svona alþjóðaskattareglur eða samninga tekst að vinna úr og koma með góðar reglur. Sem að ég vona að gangi. Og hins vegar fer þetta eftir ákvörðunum viðkomandi landa. Því þau þurfa að breyta sinni löggjöf og sinni framkvæmd. Og það mun hafa afgerandi áhrif,“ segir Indriði.

Stjórnvöld þurfa því að undirbúa löggjöf sem nýtir þær heimildir sem alþjóðasamningar fela í sér.  „Ef vel til tekst þá á þetta að geta haft veruleg áhrif. Bæði vegna þessara stórfyrirtækja en líka vegna þess að það er vitað að mörg fyrirtæki nota göt í alþjóðalöggjöfinni og göt íslensku löggjöfinni til að færa héðan tekjur. Og með þessi vopn í höndum ætti að vera hægt að ná verulegum árangri á þeim sviðum.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV