Sögulegt og tímamót hefur verið haft á orði um samþykkt G7-ríkjanna sem var tilkynnt í gær. „Já ég get tekið undir það. Þetta hefur lengi verið baráttumál margra ríkja og samtök eins og OECD sem að vinna mikið að skattamálum hafa lengi unnið að og barist fyrir sameiginlegum reglum um þetta efni,“ segir Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri.
Lágmarksskattur og aukin skattheimta
Segja má að samkomulagið skiptist í tvo þætti. Annars vegar að setja alþjóðlegan lágmarksskatt á fyrirtæki sem samkvæmt samkomulaginu verður 15%. Í öðru lagi á að koma því í kring að fyrirtækin greiði skatta í því landi sem þau afla tekna. Þetta beinist ekki síst að stórfyrirtækjum eins og Google og Facebook. „Og hún er einfaldlega hugsuð á þann veg að sé hagnaður móðurfyrirtækisins í heild yfir einhverjum tilteknum mörkum, yfir 10%, þá skiptist 20% af því sem umfram er á milli landa eftir því hvar teknanna hefur verið aflað og þau lönd geti síðan lagt á það skatt,“ segir Indriði.